Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Oddvitanir í RNB svara: Trausti
Trausti Björgvinsson oddviti Pírata.
Laugardagur 24. maí 2014 kl. 08:00

Oddvitanir í RNB svara: Trausti

Hver eru þrjú helstu málefni sem ykkar flokkur leggur áherslu á fyrir þessar kosningar?
Velferðarmálin, húsnæðismálin og atvinnumálin. Það eru okkar helstu málefni. Við leggjum mesta áherslu á velferðarmál, þar sem við höfum séð að það er mikil þörf á að taka á þeim málum hér.

Fjármálin hafa verið mikið í umræðunni, hvað hyggist þið gera í þeim?
Fjármálin viljum við taka og skoða algjörlega eftir kosningar. Setjast niður með mönnum og fara yfir fjármálin, því þetta er stór baggi sem liggur á sveitarfélaginu og það þarf virkilega að taka höndum saman og vinna að.

Atvinnumálin hafa verið fyrirferðamikil, hver er ykkar stefna þar?
Það er að koma af stað hjólunum í Helguvíkinni. Við horfum á þau stóru verkefni sem þar eru hafin. Við höfum trú á því að með því að við komum inn með okkar fólk að þá getum við farið að láta þau hjól rúlla. Þetta er það mikilvægasta en það fylgir stórfyrirtækjunum mikill smáiðnaður. Við viljum hvetja smá og meðalstór fyrirtæki inn í bæjarfélagið. Það er mikilvægt hjá okkur að reyna að bæta atvinnulífið hérna.

Hvað um bæjarstjóramálin?
Það hefur hreinlega ekki verið rætt innan okkar raða, nema lauslega. Það hefur ekki verðið tekin nein ákvörðun þó að þetta sé stór spurning hvað við viljum gera. Við viljum setjast niður með mönnum eftir kosningar og sjá hver staðan verður þá. Þannig að við erum ekki að segja eitt eða annað út á við í þeim málum. Við viljum að sjálfsögðu hafa bæjarstjóra hérna sem verður fyrirmynd fyrir bæinn okkar. Það er það sem við horfum í.

Hver er ykkar skoðun á íbúalýðræði?
Íbúalýðræði er auðvitað einn af hornsteinum Pírata. Lýðræðið stendur okkur mjög ofarlega og það viljum við. Við stefnum á það að við öll stærri verkefni verði leitað til íbúanna og áhugi þeirra kannaður. Við munum virða ákvörðun bæjarbúa ef meirihlutinn er á einhverri annarri skoðun, það er alveg á hreinu.

Hvernig hefur kosningabaráttan gengið?
Hún hefur gengið mjög vel. Maður hefur fundið fyrir mikilli jákvæðni í garð Pírata. Við höfum kynnt okkur ýmis mál hérna í bæjarfélaginu, líkt og hvað varðar Fjölskylduhjálp, en það stakk mig beint í hjartað að fá þær upplýsingar frá þeim að það væru 900 manns sem sækjast eftir mataraðstoð hérna í hverjum mánuði. Þetta finnst mér vera hræðileg tala. Það er þetta með litla manninn, eins og ég vil kalla hann, þar þarf aðstoð. Ég kem inn í þetta með hjartanu og ég ætla mér að klára þetta með hjartanu þó að það verði erfitt. Við ætlum ekki að fara í skítkast við aðra flokka. Heldur ætlum við í kosningabaráttu frá hjartanu, við viljum ná til fólksins þannig. Maður finnur alla þessa jákvæðni í okkar garð og það er meiriháttar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024