Oddný segist þurfa að ákveða fljótlega framtíð sína í pólitík
Í morgun var greint frá því á þingflokksfundi Samfylkingarinnar að Katrín Júlíusdóttir taki við embætti fjármálaráðherra í ríkisstjórn Íslands af Suðurnesjakonunni Oddnýju Harðardóttur.
Oddný sem er 5. þingmaður Suðurkjördæmis settist nokkuð óvænt í stól fjármálaráðherra um síðustu áramót og mun því gegna embættinu í níu mánuði en Katrín mun taka við 1. október nk. Síðasta stóra verkefni Oddnýjar verður að leggja fram fjárlög 11. sept. nk.
Oddný er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í vikunni og segir þar aðspurð um þingið í vetur: „Ég held að þetta verði viðburðaríkur vetur. Maður finnur að það er strax byrjaður kosningatitringur og það má gera ráð fyrir miklu fjöri í þinginu.“
Viðskiptablaðið segir að það hafi verið talað um það þegar hún tók við fjármálaráðherraembættinu hafi það verið til bráðabirgða og spyr Oddnýju hvort það hafi snert hana?
„Það snerti mig ekki neitt. Það eru allir ráðherra til bráðabirgða enda er þetta ekki framtíðarstarf. Ég hef þó hagað mér í öllum mínum störfum hér með langa framtíð í huga. Maður setur mörg verkefni í gang sem taka marga mánuði og gerir áætlanir yfir mörg ár. En ég var ekki spurð að því hovrt ég vildi verða ráðherra, það var bara tilkynnt. Ég á heldur ekki von á því að ég verði spurð hvort ég vilji vera áfram eða ekki.“
Nú fer að styttast í prófkjör eða uppstillingu hjá Samfylkingunni fyrir komandi kosningar. Má gera ráð fyrir því að þú sækist eftir forystusæti í þínu kjördæmi, Suðurkjördæmi?
„Ég þarf að gera það upp við mig fljótlega. Ég þarf fyrst að ákveða hvort ég ætla að halda áfram í pólitík og hvar ég sækist þá eftir að staðsetja mig,“ segir Oddný í viðtalinu.