Oddný Harðar íhugar framboð til formanns
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi, íhugar að bjóða sig fram til embættis formanns Samfylkingarinnar. Kosið verður á aukalandsfundi flokksins 4. júní næstkomandi. Tilkynna þarf um framboð fyrir 10. apríl. Að sögn Oddnýjar var það hópur fólks sem skoraði á hana að bjóða sig fram. „Ég lofaði því fólki að íhuga það og er ekki komin lengra í þessu ferli en að skoða það hverju þetta gæti hugsanlega breytt fyrir Jafnaðarmannaflokkinn og fyrir mig persónulega,“ sagði hún í viðtali við Víkurfréttir.
Mun það auka fylgi flokksins ef ný forysta tekur við?
„Það gæti gert það. Það er þó ekki alveg víst en hugsanlega myndi það fríska upp á stöðuna,“ segir hún.
Aðspurð um fylgistap Samfylkingarinnar undanfarin misseri segir Oddný ýmsar ástæður geta legið að baki því. „Í fyrsta lagi var síðasta kjörtímabil óskaplega erfitt. Við tókum við nánast gjaldþrota ríkissjóði við fordæmalausar aðstæður. Okkur tókst að stöðva skuldasöfnun og loka gatinu og sjá til þess að velferðarkerfið brotnaði ekki niður. Við vorum gagnrýnd fyrir ýmsa hluti þarna og ég held að það sé stærsta ástæðan fyrir fylgistapinu. Ég held að fólk hafi gert miklar kröfur til vinstri stjórnarinnar og að við höfum ekki uppfyllt þær allar allar.“ Þá segir Oddný ekki hægt að horfa fram hjá því að fólk hafi borið mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrum formanns Samfylkingarinnar. „Við höfum ekki náð upp sama trúverðugleika.“
Oddný er búsett í Garði og hefur verið á þingi síðan árið 2009. Hún var fjármálaráðherra tímabilið 2011 til 2012 og formaður þingflokks Samfylkingar frá 2011 til 2013. Áður var hún meðal annars skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja og bæjarstjóri í Garði.