Oddný hættir sem formaður Samfylkingarinnar
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá henni.
„Ég tók við sem formaður á miklum erfiðleikatímum í Samfylkingunni, tæpum fimm mánuðum fyrir kosningar. Á þeim stutta tíma tókst ekki að snúa við erfiðri stöðu flokksins og niðurstaða kosninganna er mér mikil vonbrigði.
Samfylkingin náði ekki árangri í þessum kosningum, en það kemur dagur eftir þennan dag og við höldum áfram. Það er afar mikilvægt að það skapist friður innan flokksins svo hægt sé að byggja starfið upp að nýju.
Ég ætla að leggja mig alla fram við þá vinnu sem framundan er við að efla Samfylkinguna, því sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að rödd jafnaðarmanna heyrist kröftuglega í íslenskum stjórnmálum og á Alþingi.
Afgerandi niðurstöður kosninganna kalla hins vegar á afgerandi viðbrögð. Ég hef því ákveðið að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, varaformaður og nýkjörinn þingmaður Norðausturkjördæmis, tekur nú við stjórn flokksins“.