Oddný fékk jafnréttisviðurkenningu
– viðurkenning veitt brautryðjendum í stjórnmálum
Fimmtán konur hlutu í vikunni jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna ákvað Jafnréttisráð að heiðra þær núlifandi konur sem með störfum sínum á Alþingi og í ríkisstjórn hafa rutt brautina og stuðlað að auknu jafnrétti á sviði stjórnmálanna.
Konurnar eiga sammerkt að hafa verið fyrstar núlifandi kvenna til að gegna veigamiklum embættum í íslenskum stjórnmálum, þ.e. sem forseti Alþingis, sem ráðherra og sem formenn þingflokka. Meðal þeirra var Oddný G. Harðardóttir. Frá þessu er greint á vef Velferðarráðuneytisins.
Auk kvennanna fimmtán var minnst þeirra Ingibjargar H. Bjarnason og Auðar Auðuns sem báðar voru frumkvöðlar að þessu leyti, Ingibjörg sem fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi árið 1922 og Auður sem m.a. varð fyrst kvenna borgarstjóri 1959-1970 og fyrst kvenna til að taka sæti í ríkisstjórn 1970-1971.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, veitti viðurkenningarnar og flutti ávarp þar sem hún sagði vel við hæfi að nýta 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna til að heiðra konur sem brotið hafa glerþakið svokallaða og rutt konum braut til aukinna áhrifa í stjórnmálum:
„Kosningaréttur kvenna og kjörgengi þeirra til jafns við karla var einn mikilvægasti þáttur lýðræðisþróunar hér á landi því í þessum réttindum felst grunnur fulltrúalýðræðisins; þau grundvallar mannréttindi að geta haft áhrif. Í dag hundrað árum síðar eru konur um 40% þingmanna en hlutfall kvenna hefur hæst verið 43% eftir kosningarnar 2009. Áður hafði hlutfall kvenna farið hæst eftir kosningarnar 1999 eða í 35%. Enn hallar á konur á opinberum vettvangi og við eigum að nýta tímamótin til framfara á sviði jafnréttismála og til að rifja upp og skrá sögu baráttunnar fyrir auknum borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum kvenna,“ sagði ráðherra m.a. við afhendingu viðurkenninganna sem fram fór í Listasafni Íslands.
Oddný G. Harðardóttir
Alþingismaður Suðurkjördæmis síðan 2009 (Samfylkingin). Formaður þingflokks Samfylkingarinnar 2011–2012 og 2012–2013. Fjármálaráðherra 2011–2012 og fjármála- og efnahagsráðherra 2012.