Oddfellowar á Suðurnesjum færðu Velferðarsjóði 3,2 milljónir króna
Þann 5. nóvember síðastliðinn afhentu deildir Oddfellowreglunnar I.O.O.F. í Reykjanesbæ styrk til Velferðarsjóðs Suðurnesja að fjárhæð 3,2 milljónir króna.
Nú á þessum fordæmalausu tímum eru íbúar á Suðurnesjum að takast á við mikla erfiðleika og atvinnuleysi hefur aldrei verið hærra. Á tímum sem þessum er áríðandi að samfélagið standi saman og hlúi að þeim sem minna mega sín. Velferðarsjóður Suðurnesja hefur á undanförnum árum verið sá aðili sem hægt hefur verið að leita til eftir stuðningi og hefur sjóðurinn stutt börn og fullorðna með ýmsum hætti.
Upphaf Oddfellowreglunnar á Suðurnesjum má rekja til ársins 1976 en eitt af grunngildum hennar er að líkna bágstöddum.
Í Reykjanesbæ eru eftirtaldar Oddfellowregludeildir starfandi:
Oddfellowstúkan Njörður, Rebekkustúkan Steinunn, Oddfellowbúðirnar Freyr, Oddfellowstúkan Jón forseti og Rebekkustúkan Eldey.