Óánægja með rekstraraðila leikskólans í Sandgerði
Umsókn bæjarbúa í Sandgerði um að Sandgerðisbær greiði fyrir leikskólapláss í öðru sveitarfélagi hefur verið hafnað af bæjaryfirvöldum.
„Það er ljóst að einhver óánægja er meðal bæjarbúa um núverandi rekstraraðila á leikskólanum Sólborg og því mikilvægt að vinnuhópur um leikskólamál fái öll gögn sem tengjast framtíð leikskólamála í Sandgerði inn á borð til sín til umfjöllunar,“ segir Guðmundur Skúlason, bæjarfulltrúi B-listans, í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Sandgerðis.
„Fulltrúar B-listans greiða atkvæði á móti afgreiðslu bæjarráðs. Okkar mat er að þetta mál eigi að fá umsögn í vinnuhópi um leikskólamál áður en til afgreiðslu kemur,“ segir Guðmundur jafnframt í bókun sinni.
„Stefna Sandgerðisbæjar er að reka góðan leikskóla og hefur bæjarfélagið samið við Hjalla ehf. um rekstur leikskólans. Hugmyndafræði og stefna Hjalla er í samræmi við aðalnámskrá leikskóla. Allir leikskólar á landinu vinna eftir einhvers konar stefnu eða hugmyndafræði um menntun á leikskólastigi og vegna stærðar sveitarfélaganna reynist víðast erfitt og nánast ómögulegt að bjóða foreldrum frjálst skólaval í leik- eða grunnskólum. Að mati forsvarsmanna Sandgerðisbæjar stendur foreldrum í Sandgerði til boða faglegt og gott leikskólastarf. Í ljósi framangreinds og í ljósi jafnræðis og fordæmisgildis leggur meirihluti bæjarráðs til við bæjarstjórn að umsókn um leikskólavistun utan lögheimilissveitarfélags verði hafnað,“ segir í bókun meirihlutans í bæjarráði en fulltrúi B-listans sat hjá.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði Daði Bergþórsson fulltrúi B-lista lagði fram eftirfarandi tillögu: „Fulltrúar B-listans leggja til að málið fái umsögn í vinnuhópi um leikskólamál áður en til afgreiðslu kemur“.
Tillaga B-listans var felld með fjórum atkvæðum S-lista og D-lista á móti þremur atkvæðum B-lista og H-lista.
Afgreiðsla bæjarstjórnar var að lokum sú að fulltrúar S-lista og D-lista taka undir bókun bæjarráðs og samþykkja tillögu ráðsins um að umsókn um leikskólavistun utan lögheimilissveitarfélags verði hafnað með fjórum atkvæðum. Tveir fulltrúar B-lista greiða atkvæði á móti tillögunni og fulltrúi H-lista situr hjá.