Nýtt: Snjóplógar hindra brottför skuldugrar þotu
Snjóplógar eru notaðir til að hindra að Airbus A-320 flugvél tékkneska flugfélagsins Holiday Czeck Airlines yfirgefi Keflavíkurflugvöll án heimildar. Hefur a.m.k. einum plóg verið komið fyrir framan við vélina þar sem flugvélin er staðsett við flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli.
Hjá Isavia er greinilega gert ráð fyrir að eigendur vélarinnar reyni að fljúga í heimildarleysi frá Keflavíkurflugvelli og því gripið til þessa ráðs sem þekktara er úr verkfallsaðgerðum og mótmælum þegar stöðva þarf framkvæmdir.
Samkvæmt heimildum eru skuldir vegna lendingargjalda flugfélagsins upp á tugi milljóna króna og flugvélin fær ekki að fara frá Keflavíkurflugvelli fyrr en skuldin hefur verið gerð upp.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi nú áðan og má sjá snjóplóg Isavía framan við þotuna.