Nýtt ómskoðunartæki gefið til HSS
Krabbameinsfélag Suðurnesja afhenti á dögunum nýtt ómskoðunartæki til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Tækið leysir af hólmi eldra tæki sem komið er á þrítugsaldurinn og kvensjúkdómalæknar á HSS hafa haft til afnota.
Nýja ómtækið er greiningartæki sem notað er til að greina meinsemdir í innri kynfærum kvenna og til að fylgjast með fósturmyndun og fósturþroska á meðgöngu.
Það er Krabbameinsfélag Suðurnesja sem hafði frumkvæði af því að gefa tækið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en Konráð Lúðvíksson, kvensjúkdómalæknir, leitaði til félagsins. Krabbameinsfélagið leitaði svo áfram til Lions- og Lionessuklúbbanna á Suðurnesjum, Oddfellowstúkunnar Jóns forseta og Rótarýklúbbs Keflavíkur undir þeim formerkjum að „margt smátt gerir eitt stórt“. Einn af stærstu bakhjörlum Krabbameinsfélags Suðurnesja í gjöfinni er svo Sigurður Wium Árnason sem á dögunum færði félaginu tvær milljónir króna að gjöf til minningar um konu hans, Auði Bertu Sveinsdóttur, og son þeirra, Svein Wium Sigurðsson, sem bæði létust úr krabbameini fyrir mörgum árum.
Nýja ómskoðunartækið er að andvirði nærri fjögurra milljóna króna.
Frá afhendingu greiningartækisins á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Á myndinni eru fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og þeirra félaga sem komu að afhendingu gjafarinnar. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson