Nýtt og glæsilegt hjúkrunarheimili vígt á Nesvöllum
Hrafnista tekur á morgun, föstudag, við rekstri á nýju hjúkrunarheimili fyrir sextíu íbúa sem Reykjanesbær hefur byggt á Nesvöllum. Hjúkrunarheimilið verður af þessu tilefni vígt formlega á morgun kl. 14 að viðstöddum heilbrigðisráðherra, fulltrúum Reykjanesbæjar og annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum, tilvonandi íbúum, starfsfólki og ýmsum öðrum gestum.
Íbúum Suðurnesja er boðið sérstaklega í opið hús síðdegis á morgun, milli kl. 16 og 18.
Reykjanesbær samdi fyrr á árinu við Sjómannadagsráð, eiganda Hrafnistuheimilanna um rekstur nýja hjúkrunarheimilisins á Nesvöllum auk Hlévangs, sem er eldra hjúkrunarheimili fyrir þrjátíu íbúa. Hrafnista tók við rekstri Hlévangs 1. mars.
Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum verður rekið eftir nýrri hugmyndafræði í öldrunarþjónustu sem þróuð hefur verið undanfarin ár á Hrafnistu í Kópavogi. Hún felur í sér sameiningu á bestu kostum sjálfstæðrar búsetu og þess öryggis sem hjúkrunarheimili hafa uppá að bjóða. Þessi nýja hugmyndafræði byggir á þátttöku íbúanna sjálfra og aðstandenda þeirra í daglegu lífi á heimilinu þar sem starfsfólk og íbúar vinna saman að því að skapa hlýlegt og virkt samfélag. Hönnun húsnæðisins tekur mið af þessari hugmyndafræði, sem byggir á litlum einingum með eldhúsi, setustofu og borðstofu í miðju hússins, sem mynda umgjörð um daglegt líf á heimilinu. Persónuleg rými eru stór og björt með sér baðherbergi. Stoðeiningar eru staðsettar í samtengdri þjónustumiðstöð, svo sem endurhæfing, félagsstarf, dagvistun og mötuneyti fyrir íbúa í þjónustuíbúðum.
Enda þótt húsnæði hjúkrunarheimilisins við Hlévang sé á margan hátt barns síns tíma gera áætlanir Hrafnistu ráð fyrir að sama hugmyndafræði verði innleidd á Hlévangi. Fulltrúar Hrafnistu hafa m.a. skoðað hjúkrunarheimili í Danmörku sem eru í eldra húsnæði, þar sem íbúar og starfsmenn hafa breytt fyrirkomulagi heimilishaldsins í þessu skyni með góðum árangri.
Við vígslu hjúkrunarheimilisins á Nesvöllum á morgun flytja ávarp Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.