Nýtt nám í MSS á dag- og kvöldtíma í maí og júní
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er að fara af stað með nám sem hentar þeim sem eru atvinnulausir og vilja nota vorið og byrjun sumars til að bæta við sig þekkingu. Í byrjun maí hefst nám fyrir lesblinda sem byggist m.a. á Ron Davis aðferðinni, einnig fer af stað nám fyrir þá sem vilja styrkja sig í upplýsingatækni og þá sem vilja styrkja sig í almennum bóklegum greinum. Ingibjörg Þ Ólafsdóttir verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar segir að námið henti vel þeim sem sjá ekki fram á að fá vinnu í maí og júní en vilja nota tímann og byggja sig upp.
Upplýsingatækni námið er hugsað fyrir þá sem vilja auka færni sína á tölvu á vinnumarkaði á meðan námið í bóklegu greinunum hentar til dæmis vel þeim sem hafa starfað í iðngreinum en eiga eftir að taka bóklegu greinarnar. Báðar þessar námsleiðir verða kenndar á dagtíma. Þriðja námsleiðin, Aftur í nám er síðan fyrir einstaklinga sem eiga við lestrar- og skriftarerfiðleika að stríða og hentar bæði atvinnulausum og þeim sem eru í vinnu þar sem námið fer að mestu fram á kvöldin fyrir utan einkatímana í Ron Davis aðferðinni, þeir fara fram á daginn.
Þá hefur MSS farið í samstarf við Sveitarfélagið Voga og Vinnumálastofnun og verður í boði í Vogum námskeið í færnimöppu, ferilskrá og áhugasviðsgreiningar. Einnig mun nám í upplýsingatækni verða í boði þar. Ingibjörg hvetur alla þá sem telja sig geta nýtt sér þetta námsframboð eða vilja nánari upplýsingar að setja sig í samband við Miðstöðina í síma 421-7500 eða á netfanginu [email protected]