Nýtt leiðakerfi strætó tekið í notkun á morgun
Nýtt og endurbætt leiðakerfi strætó í Reykjanesbæ verður tekið í noktun á morgun, fimmtudag. Breytingar á leiðakerfinu miða að því að bæta þjónustu og auka þægindi fyrir farþega.
Við gerð nýja leiðarkerfisins var tekið mið af því að auka þjónustu við nemendur og eldri borgara. Áhersla er lögð á að þjóna hverju skólahverfi og taka um leið mið af lykilþjónustu í bæjarfélaginu. Þar má nefna stofnanir s.s. skóla, íþróttahús, sjúkahús, banka, Vatnaveröld, Nesvelli og verslanir.
Sett verður upp miðlæg skiptistöð við Reykjaneshöll þar sem að allir vagnar stoppa á heila tímanum og auðveldar það farþegum að sækja þjónustu í önnur hverfi. Stoppistöðum hefur verið fjölgað og eins hefur einni leið verið bætt við leiðarkerfið.
Þá hafa allar stoppistöðvar fengið nafn og við þær hefur verið sett upp vandað kort af leiðarkerfi ásamt öllum upplýsingum. Að auki hefur biðskýlum verið fjölgað og merkingar bættar, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.
VF-mynd/Hilmar Bragi: Frá kynningu nýja leiðarkerfisins á dögunum.