Nýtt kvikuinnskot getur verið að myndast syðst í ganginum við Fagradalsfjall
Jarðskjálftahrinan sem hófst 24. október heldur áfram. Tæplega 4000 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaganum og þar af 14 yfir M3,0 að stærð. Mesta virknin hefur verið frá Stóra-Skógsfelli í norðaustri að Eldvörpum. Skjálftarnir eru á 2-6 km dýpi. Stærsti skjálftinn mældist 25. október kl 8:18 og var M4,5 að stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
GPS mælingar benda sem fyrr til áframhaldandi þenslu á töluverðu dýpi undir Fagradalsfjalli.
Vísindafólk Veðurstofunnar telur að skjálftarnir séu gikkskjálftar, þ.e.a.s. afleiðing spennubreytinga vegna þenslu við Fagradalsfjall. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni á meðan á þenslunni stendur.
Aflögunarmælingar sýna engar breytingar í tengslum við jarðskjálftahrinuna við Svartsengi og Grindavík. GPS mælingar á stöðinni FEFC, austan við Festarfjall, sýna færslu til suðausturs. Þessar mælingar gætu bent til að nýtt kvikuinnskot sé að myndast syðst í ganginum við Fagradalsfjall.