NÝTT JARÐHITASVÆÐI Á SUÐURNESJUM SKOÐAÐ
Umhverfisráðuneytið hefur óskað eftir umsögn frá bæjarráði Grindavíkurbæjar vegna umsóknar Hitaveitu Suðurnesja um að fá að rannsaka Trölladyngjusvæðið á Reykjanesskaga. Bæjarráð tók erindi ráðuneytisins til umfjöllunar þann 20. október og hvetur til þess að rannsóknarleyfið verði veitt. Hitaveita Suðurnesja óskar eftir heimild til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu jarðhitasvæðis á svokölluðu Trölladyngjusvæði á Reykjanesskaga, með nýtingarleyfi í framtíðinni í huga. Bæjarráð hvetur til þess að rannsóknarleyfið verði veitt sem fyrst og telur nauðsynlegt að safna ítarlegum upplýsingum um Trölladyngjusvæðið og þá möguleika sem þar kunna að vera fólgnir. Í fundargerð ráðsins kemur fram að það telji Hitaveitu Suðurnesja vel til þess fallna að leiða slíka rannsókn þar sem fyrirtækið er þekkt fyrir góða umgengni við náttúruna.