Nýtt íþróttahús rís í Grindavík
- Framkvæmdir tefjast vegna sprungu undir byggingarreit
Framkvæmdir eru hafnar við íþróttamannvirki í Grindavík. Hluti af gamla íþróttahúsinu hefur verið rifinn og jarðvinnuverktaki á fullu að undirbúa verkið fyrir útboð en á svæðinu er nú myndarleg hola þar sem nýtt íþróttahús mun rísa.
„Framkvæmdin er enn í útboði og gert er ráð fyrir að opna tilboð þann 20. febrúar nk., gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega í kjölfarið af því,“ segir Ármann Halldórsson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkur.
Á fyrstu hæð hússins er gert ráð fyrir forrými sem tengir íþróttamiðstöð og tengigang við nýjan íþróttasal ásamt búningaaðstöðu, áhaldageymslu, afgreiðslurými o.fl.
Á annari hæð verður meðal annars fjölnota salur en mikil uppbygging hefur verið í íþróttalífinu í Grindavík á undanförnum árum og fjölbreytnin er mikil. Íþróttir eins og og júdó, taekwondo og fimleikar blómstra í bæjarfélaginu, ásamt körfu, knattspyrnu og sundi.
Upp er komin ný staða í framkvæmdum en í ljós hefur komið sprunga undir byggingarreit hússins. Meðan verið er að breyta burðarvirki hússins mun opnun tilboða og verktíma verða frestað um mánuð.