Nýtt hjúkrunarheimili: Skuldbindingin erfið vegna fjárhagsstöðu
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir ráðuneytið leita leiða til gera sveitarfélögum með bága fjárhagsstöðu kleift að hefja uppbyggingu hjúkrunarheimila. Reykjanesbær sé eitt þeirra. „Vonandi tekst okkur að finna á því lausn á næstu dögum, þannig að framkvæmdir geti farið af stað í Reykjanesbæ á næstu mánuðum,“ segir Árni Páll.
Árni Páll var gestur á fundi Félags eldri borgara á Suðurnesjum um síðustu helgi. Þar var m.a. spurt um uppbyggingu hjúkrunarheimils á Nesvöllum. Stjórnvöld kynntu ekki alls fyrir löngu ný áform um uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma á landinu næstu tvö til þrjú árin.
Komið hefur fram í fyrri umfjöllun VF að um þessar myndir eru um 30 einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými í Reykjanesbæ.
„Á fundinum ræddi ég fyrirhugaða uppbyggingu hjúkrunarheimila í alls níu sveitarfélögum, sem við höfum tryggt fjármuni til frá ríkinu. Gert hefur verið ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samvinnu við sveitarfélögin á þann veg að þau taki að sér framkvæmd og ríkið endurgreiði 85% af byggingarkostnaði í leigugreiðslu til 40 ára. Nú háttar hins vegar svo til að nokkur sveitarfélaganna, þeirra á meðal Reykjanesbær, eiga í erfiðleikum með að takast á hendur skuldbindinguna sem í samningnum felst vegna bágrar fjárhagsstöðu. Við erum að vinna að því hér í félags-og tryggingamálaráðuneytinu að leita leiða með samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að finna lausn á þessu máli, til að gera sveitarfélögum í þessari stöðu kleift að fara af stað í verkefnið. Vonandi tekst okkur að finna á því lausn á næstu dögum, þannig að framkvæmdir geti farið af stað í Reykjanesbæ á næstu mánuðum,“ sagði Árni Páll í samtali við VF.
Tengd frétt:
Hyllir undir byggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Fyrirhugað er að byggja nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum.