Nýtt hjarta fundið fyrir Helga Einar úr Grindavík
Nýtt hjarta er fundið fyrir Helga Einar Harðarson úr Grindavík. Kallið kom í kvöld kl. 19 og klukkustund síðar var Helgi farinn af stað með einkaþotu til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem nýtt hjarta og nýra verður grætt í hann.
Helgi Einar hefur beðið í um eitt ár eftir því að fá nýtt hjarta í annað sinn. Fyrir 15 árum síðan fór hann í hjartaskiptaaðgerð í Englandi og var þá annar Íslendingurinn til að fara í slíka aðgerð. Helgi er fyrsti Íslendingurinn sem gengst undir hjartaskiptaaðgerð í annað sinn. Hann hefur nú beðið í eitt ár eftir nýja hjartanu, sem verður það þriðja sem hann gengur með.
Í Tímariti Víkurfrétta, sem kemur út á miðvikudaginn er áhrifamikið viðtal við Helga, þar sem hann segir frá sjúkrasögu sinni og þeirri tilfinningu að ganga með hjarta úr öðrum einstaklingi.
Meðfylgjandi mynd tók Jóhannes Kr. Kristjánsson ljósmyndari Víkurfrétta af Helga Einari Harðarsyni í dag kl. 15 með tíkina sína, hana Liz. Fjórum tímum síðar fékk Helgi þær fréttir að hjartagjafi væri fundinn.