Nýtt gjald til bráðabirgða á ytri hópbifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll
Þann 5. nóvember tekur gildi ný verðskrá fyrir ytri hópbifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll. Nýrri verðlagningu er ætlað að verja samkeppnislega hagsmuni og gæta jafnræðis milli samgöngumáta sem nota innviði Isavia í tengslum við flutning farþega til og frá flugstöðinni, einkum þjónustu hópbifreiða á Keflavíkurflugvelli. Samkeppniseftirlitið og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telja Isavia skylt að taka gjald fyrir veitta þjónustu og það raski samkeppni að taka ekkert gjald fyrir bifreiðastæðin. Ekkert gjald er nú greitt á ytri stæðum, samkvæmt bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá í júlí síðastliðnum, en gjald er tekið af hópbifreiðum á nærstæðum við flugstöðina.
Isavia telur óhjákvæmilegt annað en að fá úr því skorið hvernig haga eigi kostnaðar- og gjaldagrunni vegna gjaldtöku á flugvellinum en mál Isavia og Samkeppniseftirlitsins snertir meðal annars tilhögun á fjármögnun á uppbyggingu á innviðum flugvallarins, þjónustu við flugfarþega og samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar við aðra alþjóðlega flugvelli.
Ný verðskrá gerir ráð fyrir að frá 5. nóvember greiði hópbifreið, sem tekur allt að 19 farþega, 3.200 krónur fyrir hvert skipti sem farþegar eru sóttir í flugstöðina. Bifreið sem tekur 20-45 farþega greiði 7.400 krónur og bifreið sem tekur 46 farþega eða fleiri greiði 9.900 krónur.
Þann 1. mars síðastliðinn hóf Isavia gjaldtöku á ytri hópbifreiðastæðum. Tilkynnt var að aðlögunarverð yrði í gildi fyrstu mánuðina. Gjaldtakan var kærð til Samkeppniseftirlitsins og er málið enn til meðferðar þar. Í júlí var gjaldtöku á stæðunum hætt vegna bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins.
Isavia hefur nú ákveðið að frá upphafi gjaldtöku 1. mars og til 4. nóvember gildi aðlögunarverðið. Tímabundna gjaldið, sem tekur gildi 5. nóvember, verður endurskoðað til framtíðar þegar endanleg niðurstaða í máli Isavia við Samkeppniseftirlitið um tilhögun og forsendur gjaldtöku á bílastæðunum og veitta þjónustu er fengin, eftir atvikum fyrir stjórnvöldum eða dómstólum. Samhliða framangreindu verður tekin ákvörðun um hvort gjald sem var tekið frá 1. mars til 17. júlí 2018, þegar bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins var birt, verði endurgreitt eða ekki.
„Ljóst er að málið er ekki búið, en við erum ánægð með að niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála er að það eigi að taka gjöld af ytri hópbifreiðastæðum, en ágreiningurinn er um hvað gjaldið eigi að vera hátt. Eins og áður hefur komið fram er það markmið Isavia að tryggja að jafnræðis sé gætt milli þeirra sem veita þjónustu og selja vöru í og við Keflavíkurflugvöll,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia. „Það er okkar von að þetta breytta og tímabundna gjald verði til að tryggja sátt um rekstur hópbifreiðastæða við Keflavíkurflugvöll á meðan málið er til meðferðar.“