Nýtt fyrirkomulag í fræðslumálum í Grindavík
-þrjár nýjar stöður auglýstar lausar til umsóknar
Gerðar hafa verið skipulagsbreytingar hjá Grindavíkurbæ til þess að hlú betur að fræðslumálum.
Samkvæmt nýrri tillögu frá félagsþjónustu- og fræðslusviði verður til ný staða forstöðumanns skólaþjónustu en sviðsstjóri félags- og fræðslumála verður áfram næsti yfirmaður skólastjórnenda.
Fræðslunefnd og félagsmálanefnd hafa fjallað um tillöguna og lýst stuðningi en gert er ráð fyrir að auglýsa laus til umsóknar þrjú störf í stað þeirra sem fyrir eru.
Fulltrúi B- lista lögð fram bókun við afgreiðslu tillögunnar í bæjarráði þann 7. júlí sl. þar sem segir m.a. "Miðað við rekstrarkostnað ársins 2014 er ljóst að 71,1% af rekstrarkostnaði bæjarins fellur undir félagsþjónustu- og fræðslusvið. Önnur svið deila með sér 28,9% af rekstrargjöldum. Ljóst er að félagsþjónustu- og fræðslusvið er því lang stærsta sviðið bæði þegar kemur að rekstrarkostnaði og starfsmannafjölda (77,3% starfsmanna bæjarins). Nýta á það tækifæri og svigrúm sem nú hefur myndast á umræddu sviði til að leggja aukna áherslu á fræðslumál. Með hliðsjón af því leggur fulltrúi B-lista til að félagsþjónustu- og fræðslusviði verði skipt upp í tvö svið, annars vegar fræðslusvið og hins vegar félagsþjónustusvið og að auglýst verði starf sviðstjóra fræðslumála. Þannig er hægt að efla starf skólaskrifstofunnar og leggja aukna áherslu á fræðslumál.
Fulltrúar D og G lista tóku undir með fulltrúa B-lista um að leggja þurfi mikla áherslu á fræðslumálin og telja að verið sé að gera það með tillögunni.
"Bæði félagsmálanefnd og fræðslunefnd hafa fjallað um tillöguna og lýst yfir ánægju með hana. Við tökum undir með þeim og væntum þess að með breytingunni sé verið að taka mikið umbótaskref í átt að enn betri og bættri þjónustu í fræðslumálum."