Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Nýtt framhaldsskólanám í tölvuleikjagerð í Keili hefst haustið 2019
Námsframboð í Keili er alltaf að aukast.
Fimmtudagur 17. janúar 2019 kl. 09:00

Nýtt framhaldsskólanám í tölvuleikjagerð í Keili hefst haustið 2019

Ný námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð verður í boði á vegum Keilis frá og með næsta hausti, samkvæmt samkomulagi milli Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Keilis. Námið hefur verið nokkur ár í burðarliðnum en með samkomulaginu hefur ráðuneytið nú veitt skólanum leyfi til inntöku allt að 40 nýnema á haustönn 2019.
Velta tölvuleikjaiðnaðarins á heimsvísu er nú orðin meiri en kvikmyndaiðnaðarins. Á Íslandi eru tekjur af leikjaiðnaði nær eingöngu í formi útflutnings og hefur verið skortur á vel menntuðu innlendu starfsfólki við greinina. Markmið Keilis er að bjóða upp á nám í tölvuleikagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum. Áhersla verður lögð á náin tengsl við atvinnulífið en tölvuleikjaframleiðendur á Íslandi og Samtök leikja­framleiðenda á Íslandi (IGI) munu veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins, segir í frétt skólans.
 
 
Þetta í fyrsta sinn sem Keilir býður upp á nám til stúdentsprófs frá því að skólinn var stofnaður árið 2007. Nám í tölvuleikjagerð á framhaldsskólastigi byggir á kjarna- og valfögum sem einskorðast ekki við forritun heldur taka á öllum fjölbreyttum þáttum sem til grundvallar eru fyrir skapandi starf leikjagerðarfólks, s.s.  hönnun, tónlist, hljóðupptökur, verkefnastjórnun og heimspeki o.fl. Þá verður starfsnám og verkefna- og hópavinna mikilvægur hluti námsins.
 
Skólinn mun leggja áherslu á vendinám sem hefur verið stór hluti af starfi Keilis á undanförnum árum. Í náminu verða því hvorki hefðbundnar kennslustofur né hefðbundin stundatafla heldur munu nemendur sinna námi sínu og verkefnum í skólanum þar sem kennarar verða til staðar og leiðbeina þeim. Lögð verður áhersla á nýstárlega nálgun í kennsluaðferðum og við námsmat. Til dæmis mun skólinn byrja seinna á daginn en aðrir framhaldsskólar, nemendur munu nýta snjalltæki í stað skólabóka og stefnt verður á afnám hefðbundinna prófa, þar sem stuðst verður í staðinn við meðal annars símat, nemendaverkefni og jafningjamat.
 
 
Nánari upplýsingar um námið verður hægt að nálgast á heimasíðu Keilis í byrjun febrúar. Áhugasamir geta einnig heimsótt kynningarbás fyrir námið á UTmessunni í Hörpu, laugardaginn 9. febrúar eða á Framhaldsskólakynningunni í Laugardalshöll dagana 14. - 16. mars næstkomandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024