Nýtt fjarskiptakerfi lögreglunnar
Lögreglan í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli hafa tekið nýtt fjarskiptakerfi í notkun, TETRA. Kerfið er stafrænt og býður upp á fjölbreytta notkunarmöguleika. Kerfið verður tekið í notkun um land allt á næstu misserum en nú er það komið í Reykjavík, Hafnarfirði, Selfossi, Akranesi, Keflavík og á Keflavíkurflugvelli. Fjarskiptamiðstöðin verður í Reykjavík og mun öll neyðarsvörun fara þar fram. Neyðarnúmerum á þeim lögreglustöðvum sem tekið hafa kerfið í notkun, verður því svarað í fjarskiptamiðstöðinni.Karl Hermannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík, sagði að menn væru almennt ánægðir með kerfið og búið væri að setja það í alla lögreglubílana. „Þetta er mikil breyting fyrir okkur. Nú er ekki hægt að skanna fjarskipti lögreglunnar, sem eykur öryggi og gerir störf okkar þægilegri. Þá getum við hringt beint á milli einstakra talstöðva og þá á að vera hægt að nota talstöðvarnar eins og gsm síma, þ.e.a.s hægt verður að hringja úr þeim inn í almenna símakerfið. Á hverri talstöð er neyðarhnappur sem hringir beint í fjarskiptamiðstöðina, en þessi hnappur er einungis notaður í neyðartilvikum. Það hafa komið fram smá hnökrar á kerfinu, þ.e. að endurvarparnir hafa ekki allir virkað sem skyldi, en verið er að vinna við að lagfæra það vandamál, sagði Karl Hermannson.