Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt félag á Keflavíkurflugvelli: Óverulegar breytingar á starfsmannahaldi
Fimmtudagur 26. júní 2008 kl. 17:39

Nýtt félag á Keflavíkurflugvelli: Óverulegar breytingar á starfsmannahaldi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Óverulegar breytingar verða á starfsmannafjölda þegar Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og Flugstöð Leifs Eiríkssonar verða sameinuð í eitt hlutafélag í eigu ríkisins, Keflavíkurflugvöll ohf., um næstu áramót.

Það sagði Kristjan L. Möller, samgöngumálaráðherra, aðspurður í samtali við Víkurfréttir á stofnfundi hins nýja félags í dag.

„Þegar félagið fer í gang verður það alveg eins og var um síðustu áramót þegar þetta færðist allt úr utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytisins. Ég sagði þá að eini munurinn væri að nú væri kominn nýr dagur og nýtt ár.“

Hann bætti því við að mannauðurinn sem byggi í starfsfólkinu væri það sem byggja ætti á.

„Ég óska þess og vina að stjórnendur fyrirtækisins og starfsmenn leggist allir á eitt með að reka hér öflugt og gott félag sem verður framsækið og eflist á komandi árum. Við ætlum okkur að taka þátt í þessari keppni alþjóðlegra flugvalla, vera í efstu deild og í efstu sætum.“

Með sameiningunni er leitast við að ná fram hagræði og það sem Kristján segir ótvíræð samlegðaráhrif.

Í tilkynningu frá Samgönguráðuneytinu segir að verkefni félagsins felist í rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Flugstöðvarinnar annars vegar og hins vegar Keflavíkurflugvallar sem borgaralegs flugvallar auk hagnýtingar flugvallarsvæðisinsí þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi.

Í tilkynningunni segir ennfremur að félaginu sé heimilt að standa að stofnun annarra félaga og fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Þannig er félaginu heimilt að taka þátt í félagi sem ætlað væri að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins.

Aðspurður að því hvort hlutverk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, uni breytast með tilkomu þessa nýja félags sagið Kristján:
„Í lögunum um félagið er gert ráð fyrir að það geti tekið þátt í annarri starfsemi og það er eitthvað sem stjórnendur þessara fyrirtækja vinna með en aðalatriðið er að nýta kraftana sem best og vera þannig tilbúnir í þessa útrás.“

Fyrsta stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. var skipuð á fundinum, en í henni eru Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ellert Eiríksson, Pétur J. Eiríksson og Sigrún Jónsdóttir.

Myndir/Oddgeir Karlsson