NÝTT BLAÐ FRÁ VÍKURFRÉTTUM Á MORGUN
Tímamót verða á morgun í starfsemi Víkurfrétta ehf. en þá mun koma út nýtt blað sem nefnist Víkurfréttir-tímarit. Blaðið er 48 síður að stærð í tímaritsbroti, allt prentað í lit, í fullkomnustu prentvél á landinu í Prentsmiðjunni Odda. Blaðið verður selt á 299 kr. Í nýja blaðinu verður fjölbreytt efni í fyrirrúmi og allt tengt Suðurnesjum. Hlutfall efnis í blaðinu er yfir 80%. Í blaðinu er fjöldi viðtala, og frásagna um hin ýmsu mál. Til að mynda er rætt við tvenn hjón sem lentu nýlega í alvarlegum bílslysum á Reykjanesbraut og þeirri spurningu velt upp hvað myndi gerast ef stórt flugslys yrði í nágrenni Keflavíkurflugvallar.Blaðið birtir myndir af myndarlegustu húsunum á Suðurnesjum sem og frá fjölda mannfagnaða og árshátíða að undanförnu. Rætt er við Keflvíking sem kjörinn var starfsmaður ársins hjá Ericsson í Þýskaland sem og við körfuboltafólk af Suðurnesjum sem nú dvelur manninn í Bandaríkjunum og knattspyrnumenn í Bretlandi. Þó hér sé aðeins sagt frá litlum hluta af fjölbreyttu efni blaðins skal ekki látið ógetið glæsilegra mynda af þátttakendum í Fegurðarsamkeppni Suðurnesja í kvöldkjólum.Tuttugasti árgangur Víkurfrétta hófst í byrjun þessa árs en í ágúst 1980 kom fyrsta tölublaðið út. Útgáfa þessa nýja blaðs er í tilefni þessara tímamóta. Framhald á frekari útgáfu „sölublaðs“ ræðst af viðtökum Suðurnesjamanna við þessari nýjung á blaðamarkaðnum. Þessi aukaútgáfa mun ekki hafa nein áhrif á hefðbundnar, vikulegar Víkurfréttir. Víkurfréttir-tímarit mun verða til sölu í öllum helstu söluturnum og matvöruverslunum, stórmörkuðum á Suðurnesjum og í Bókabúð Keflavíkur. Þá mun sölubörnum einnig gefast kostur á að ganga í hús og selja blaðið.