Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt bílastæðakerfi á Keflavíkurflugvelli
Miðvikudagur 14. júní 2023 kl. 17:41

Nýtt bílastæðakerfi á Keflavíkurflugvelli

Nýtt bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer verður tekið í notkun á skammtímabílastæðum, P1 og P2, á Keflavíkurflugvelli í næstu viku og langtímastæðum P3 á næstu vikum. Nýja kerfið mun gera aðgengi gesta Keflavíkurflugvallar að bílastæðum einfaldara og þægilegra auk þess að bjóða upp á fjölbreyttar greiðsluleiðir. 

„Við á Keflavíkurflugvelli erum afskaplega spennt að kynna þessa nýjung fyrir gestum Keflavíkurflugvallar, því markmiðið er að auka þægindi þeirra og gera ferðalagið ánægjulegra,“ segir Gunnar Ingi Hafsteinsson, deildarstjóri bílastæðaþjónustu á Keflavíkurflugvelli. „Þetta mun einfalda alla notkun bílastæðanna – tryggja greiðari aðgang og spara tíma.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

AUKIN ÞÆGINDI 

Markmiðið með innleiðingu nýja kerfisins er að tryggja gestum Keflavíkurflugvallar bætta þjónustu og ferðaupplifun. Með nýja kerfinu munu sjálfvirkar myndavélar lesa bílnúmer og sjá um að auðkenna bifreiðar sem ekið er á inn á bílastæðin og út af þeim. Það þýðir að hliðin opnast sjálfkrafa þegar ekið er upp að þeim. Því mun ekki þurfa að taka miða, skanna QR kóða eða nota greiðslukort til að opna hlið á bílastæðunum. Kerfið mun stuðla að bættu flæði og greiðari aðgangi sem mun auka þægindi fyrir gesti bílastæðanna og spara þeim tíma. 

FJÖLBREYTTAR GREIÐSLULEIÐIR 

Nýtt kerfi mun einnig gefa gestum Keflavíkurflugvallar möguleika á fjölbreyttari greiðslumöguleikum, til að auka þægindi og nýta leiðir sem eru flestu fólki kunnar. Sem fyrr er mælt með því að hugað sé að því hvernig farþegar ferðast til og frá flugvellinum um leið og flugmiðinn er bókaður.  

Til að tryggja sér bílastæði verður áfram hagstæðast að bóka þau  með góðum fyrirvara á heimasíðu Keflavíkurflugvallar eða með appi Autopay. Skrá þarf bílnúmer í bókunarferli en auðvelt er að breyta bílnúmeri ef annað farartæki verður fyrir valinu þegar nær dregur ferðinni á „Mín bókun“ á vef Keflavíkurflugvallar. Þegar komið verður á flugvöllinn mun hliðið að bílastæðinu opnast sjálfkrafa um leið og ekið er að því og það sama gildir þegar ekið er út af stæðum. Ef dvalið er lengur á stæði en upphaflega var bókað – t.d. ef flugáætlun breytist – bætist sjálfkrafa við aukagjald samkvæmt gjaldskrá.  

Einnig verður hægt að greiða með bílastæðaappinu Parka auk þess að sjálfsalar verða áfram til staðar inni í flugstöð. Ef engin þessara greiðsluleiða er notuð kemur reikningur samkvæmt gjaldskrá í heimabanka bíleiganda.  

AUTOPAY SÉRFRÆÐINGAR Í SJÁLFVIRKNI HLUTSKARPASTIR Í ÚTBOÐI 

Nýja kerfið byggir á lausnum frá fyrirtækinu Autopay sem sérhæfir sig í stafrænum og sjálfvirkum lausnum fyrir bílstæði. Fyrirtækið varð hlutskarpast í útboði á nýju kerfi fyrir bílastæði Keflavíkurflugvallar sem hófst haustið 2022 og lauk í janúar á þessu ári.