Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili verður reist í Reykjanesbæ
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar undirrituðu samkomulag í dag um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ. Hjúkrunarheimilið Hlévangur þar sem nú eru 30 rými, allt fjölbýli, verður lagt niður.
Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu hjúkrunarheimila á landinu frá haustinu 2009 var ráðgert að byggja 30 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Var þá miðað við að gamli Hlévangur yrði áfram í notkun en fjölbýlum þar breytt í einbýli. Þeirri ákvörðun hefur nú verið breytt að ósk heimamanna og var ákvörðunin um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis innsigluð í dag með undirritun samkomulags um framkvæmdir og fjármögnun þeirra.
Samkvæmt samkomulaginu munu heimamenn annast hönnun og byggingu heimilisins. Sveitarfélaginu verður tryggð fjármögnun framkvæmdanna með láni frá Íbúðalánasjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir sveitarfélaginu húsaleigu til 40 ára sem nemur 85% afborgunar af leigunni. Árlegar greiðslur Framkvæmdasjóðs eru áætlaðar um 112 milljónir króna á ári.
Í fjárlögum ársins 2011 var hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum fjölgað um 20 og ákveðið að heilbrigðisstofnun Suðurnesja myndi annast rekstur þeirra þar til nýtt hjúkrunarheimili tekur til starfa. Með byggingu nýs heimilis samkvæmt samkomulaginu fjölgar hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum um tíu frá því sem nú er. Aukinn rekstrarkostnaður vegna fjölgunarinnar nemur um 80 milljónum króna á ári.
Áætlað er að rekstur nýs hjúkrunarheimilis hefjist árið 2014.
Nánar um þessa framkvæmd hér á vf.is síðar í dag, m.a viðtöl í Sjónvarpi Víkurfrétta.