Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýtt 132 milljóna kr. hlið opnað
Föstudagur 4. mars 2005 kl. 11:49

Nýtt 132 milljóna kr. hlið opnað

Lokið er endurbótum á hliðum að varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli sem uppfylla nýjustu öryggiskröfur við eftirlit með umferð inn og út af varnarsvæðinu.

Framkvæmdirnar fólu í sér byggingu nýrra varðskýla of vegabréfaskrifstofu auk breytinga á girðingu og lagningu bifreiðastæða. Verkið var unnið af Íslenskum aðalverktökum og nam kostnaður við verkið um 132 milljónum króna.

Öll almenn umferð er sem fyrr um aðalhliðið við Hafnaveg sem er opið allan sólarhringinn en umferð flutningabifreiða verður um Grænáshlið ofan Njarðvíkur. Verður Grænáshlið lokað almennri umferð nema á tímabilinu 7:15 til 8:15 á morgnana fimm daga vikunnar. Afgreiðsla flutningabifreiða verður opin frá 8:30 til 15:30 virka daga.

Vegabréfastofan við aðalhliðið verður opni frá kl. 8:00 til 16:30 virka daga og verða aðgangsheimildir og vegabréf einungis gefin út þar á þeim tíma. Utan opnunartíma vegabréfaskrifstofu fer afgreiðsla aðgangsheimilda fram í aðalhliði og þar munu flutningabifreiðar einnig hafa aðgang eftir lokun Grænáshliðs.

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að nýja starfsaðstaðan breytti miklu fyrir lögregluna á Keflavíkurflugvelli. Verið væri að uppfylla kröfur nútímans. Með nýju hliði er aðgengi að varnarstöðinni ekki eins greitt, þ.e. flugvöllurinn væri lokaðri en áður. Jóhann vildi ekki meina að meiri ógn stæði að Keflavíkurflugvelli, en völlurinn þurfi að uppfylla kröfur um öryggi herstöðva. Kostnaður Íslendinga er enginn af þessari framkvæmd.

Næstu skref í öryggismálum Keflavíkurflugvallar er að aðskilja það svæði sem verktakar hafa frá annarri starfsemi með girðingu. Ekki er ljóst hvenær ráðist verður í það verkefni. Það er hugsað til framtíðar en byrjað verður að girða svæðið um leið og fjárveiting fæst til þess.

Frá opnun hliðsins við Hafnaveg í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024