Nýsköpun og sjálfbærni í nýrri framtíðarsýn við Keflavíkurflugvöll
Kadeco kynnir framsækna þróunaráætlun til ársins 2050
„Það er ekkert annað svæði á Íslandi sem er að vinna á sama hátt og við erum að gera hérna með Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og flugvellinum. Nálægðin við Keflavíkurflugvöll gefur gríðar mikla möguleika á uppbyggingu þróunarsvæðis sem myndar saman vistkerfi sem einkennist af samvinnu og samspili iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar. Þúsundir nýrra og fjölbreyttra starfa verða til í verkefni sem mun kosta 130 milljarða króna og gera Suðurnesin að einu mest spennandi svæði landsins á næstu árum,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar en þróunaráætlun félagsins til ársins 2050 verður kynnt í vikunni.
Kynning á þróunaráætlun hefur verið mikil vinna hjá ykkur. Hvað getur þú sagt okkur um niðurstöður?
„Við erum búin að vera í nokkur mörg ár að undirbúa þetta og það hefur verið aðdragandi áður þar sem koma þurfti á samkomulagi milli þessara aðila sem stýra hér skipulagi og öðru á svæðinu. Við höfum verið að vinna að þessu með hönnuðum, sem unnu hugmyndasamkeppnina hjá okkur, allt síðasta ár. Við höfum verið að hitta hagsmunaaðila, fyrirtæki, íbúa og fleiri. Þetta er núna komið á þann stað að við viljum sýna lokaafurðina, þar sem við erum að sýna þau þróunarsvæði sem við teljum vera álitlegust í kringum Keflavíkurflugvöll.“
Hvað er það helsta sem þið eruð að fara að gera? Eruð þið að fara að laða að fjárfesta og hvað er á þessum svæðum sem er svona spennandi að ykkar mati?
„Það sem er spennandi er nálægðin við risastóran alþjóðaflugvöll. Sömuleiðis erum við með stórskipahöfn í nágrenni við flugvöllinn. Við erum með frábært samfélag sem við erum að byggja á og erum með nálægð við annað frábært samfélag sem er höfuðborgarsvæðið. Við erum með fullt af landi og þú finnur þetta ekki víða við flugvallarsvæði. Það eru ótrúlega margir kostir við Keflavíkurflugvallarsvæðið.
Við erum að fara að laða að fjárfesta og við erum líka að fara að laða að íbúa. Á sama tíma erum við að fara að stilla af hvað þarf til í samfélaginu ef þetta verður að veruleika, ef flugvöllurinn heldur áfram að stækka og ef þetta tekst hjá okkur, þá eru frábærir tímar framundan. Samfélagið verður líka að vera tilbúið.“
Hvað sjáið þið fyrir ykkur gerast?
„Við höfum líka verið að máta inn atvinnutækifæri sem við teljum að eigi heima á þessu svæði, teikna upp lóðir og svæði.
Við Helguvíkurhöfn erum við að sjá að geta skipt því svæði upp í það sem er léttari iðnaður, eitthvað sem tengist framtíð flugs, grænir iðngarðar og svo framvegis. Okkur langar að markaðssetja það svæði sem risastóran grænan iðngarð, þar sem hringrásarhagkefið stýrir ákvarðanatöku um hvaða fyrirtæki koma inn, þannig að þau séu að vinna með afurðir hvers annars. Þá erum við komin með þannig svæði sem er á mörkum flugvallar og hafnar og hefur þannig forskot umfram önnur svæði. Við viljum láta umheiminn vita af því. Sömuleiðis erum við að tefla fram svæðum fyrir íbúðabyggð á Ásbrú. Við erum einnig að vinna með svæði eins og í kringum Aðaltorg í Reykjanesbæ þar sem farin er af stað mikil þróun. Við erum að leggja til annað sem gæti átt heima á þeim stað samhliða þeirri þróun sem þegar er að eiga sér stað.“
Hvað er markmiðið með þessu?
„Upphaflega markmiðið var að ná utan um skipulagsmál og þróunarmál sem eru á höndum margra aðila. Það var ekki verið að fullnýta þau tækifæri sem við sáum fyrir okkur að gætu verið hér á svæðinu. Þróunarsvæði voru ekki að njóta þess að vera þéttir kjarnar og við erum að ná utan um það. Samstaða sveitarfélaga og skilaboðin til þeirra sem við ætlum að reyna að laða að eru gríðarlega mikilvæg, að það séu allir saman á bakvið þetta verkefni. Við erum saman að láta alla vita af því að hér eru spennandi tækifæri.“
Hvað er næsta skref?
„Næsti fasi í okkar tilveru er að láta vita að þessu. Við erum með skipulagðar kynninar innanlands og þá erum við að fara á alþjóðlegar ráðstefnur, þar sem við erum á sviði og básum að tala við fjárfesta og tala við önnur flugvallarsvæði til að láta vita af tækifærunum hér.
Það er okkar hlutverk núna að markaðssetja svæðið, að nota þau gögn sem við höfum verið að vinna. Við erum með mjög skýrar hugmyndir um hvað getur verið hérna og nú ætlum við að láta vita af því.“
Hvað er það helst sem þið erum spennt fyrir að sjá koma?
„Við erum spennt fyrir því sem snýr að matvælaframleiðslu, innflutningi og útflutningi. Stilla betur af hvað hægt er að gera með Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll. Við erum með mjög spennandi þróunarsvæði á Ásbrú þar sem gert er ráð fyrir íbúðabyggð og höfum teiknað upp það svæði. Við erum einnig að horfa á starfsemi á Ásbrú sem er að njóta góðs af því að vera nálægt flughlaði á austurhlaði flugvallarins. Á svæðinu milli Ásbrúar og flugvallarins sjáum við fyrir okkur að þróa byggð á sama tíma og verið væri að bjóða upp á frábærar lóðir fyrir flugvallartengda starfsemi og þekkingarsamfélag, þá er á sama tíma verið að skýla byggðinni frá ásýnd hávaða og svo framvegis sem kemur frá flugvellinum.“
Í kynningunni á sínum tíma nefnduð þið dróna af stærri gerðinni sem þróast hratt. Er það eitthvað sem þið sjáið fyrir ykkur hér á Keflavíkurflugvelli?
„Drónaflug er eitthvað sem er að stækka í heiminum og möguleikar til flutninga á varningi og fólki með þeim. Við sjáum fyrir okkur lóðir á Ásbrú með aðgengi að flughlaði. Einnig varðandi flugvélaíhluti og framtíðar orkugjafa. Hér gæti verið frábært þekkingarsamfélag um framtíð flugs.“
Hvað með starfsemi bílaleiga við flugvallarsvæðið. Var hún skoðuð í þessu verkefni ykkar?
„Við tókum okkur nokkur hlutverk sem okkur fannst að þyrfti að líta til. Það hefur verið áhugavert að vinna með ráðgjöfunum sem héldu kannski að þeir væru að fara að þróa nýja flugvallarborg en þeir þurftu líka að fara að telja bílaleigubíla og taka stöðuna á þeim á svæðinu. Eins og við þekkjum er þeim dreift víða um Suðurnes. Við erum með áætlanir hvar best er að sjá þessa starfsemi fyrir sér stækka og dafna á sjálfbærari hátt frekar en að hver fyrir sig sé að finna sér einhver bílastæði við fyrirtæki eða í sveitarfélögunum. Við erum með grunnpælingar sem hægt er að nota.“
Hvað með samgöngur og hvernig koma þær inn í þessa áætlun?
„Samgöngur eru eitt af stóru málunum. Við höfum verið að skoða tengingar við höfuðborgarsvæðið með almenningssamgöngum. Eins höfum við verið að skoða tengingar hér á svæðinu við sveitarfélögin frá flugvellinum. Einnig aðra samgöngumáta. Það er mikil bílaumferð. Það þarf að bæta öryggi og flæði á Reykjanesbrautinni. Það er fullt af hjólreiðafólki sem kemur til landsins og hjólar meðfram Reykjanesbraut og það er auðveldlega hægt að gera úrbætur á því kerfi. Við erum með skoðun á því hvernig hægt er að koma okkur lengra, þannig að við séum ekki stöðugt að bíða eftir lestinni. Ef hraðlest verður eitthverntíman niðurstaðan, þá verðum við aldrei fyrir henni í því sem við erum að leggja til. Við erum að leggja til ákveðnar úrbætur í fjöldasamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Það er hægt að fara í mjög aðgengilegar lausnir eins og legg frá flugstöð á Reykjanesbraut og svo tvöföldu kerfi til höfuðborgarsvæðisins sem myndi gjörbreyta upplifun og þjónustu með almenningssamgöngum. Við erum ekki að tefla fram lest í okkar vinnu. Við erum að sjá raunhæfar lausnir til skemmri tíma án þess að vera fyrir.“
Hvað með samgöngur frá sveitarfélögunum á Suðurnesjum og að flugstöðinni?
„Við erum að sjá fyrir okkur nýjan kjarna þróast utanum Aðaltorg og við Reykjanesbrautina þar. Við erum líka að leggja til leiðir til að breyta og bæta almennings samgönguþjónustu innan svæðisins með t.d. rútum sem þú getur hringt í ef þú ert í strjálli byggðum. Við erum líka að leggja til þétt þróunarsvæði utanum Aðaltorg sem gerir það að flugvöllurinn fær betri tengingu við byggðina. Þar ertu kominn með beina leið inn í Reykjanesbæ og líka stóra stoppistöð almenningssamgangna, hvort sem þú ert að koma frá Suðurnesjabæ eða annarsstaðar frá. Það þróunarsvæði hefur gríðarlega möguleika.“
Hvaða þýðingu mun þetta hafa fyrir nærsamfélagið?
„Þetta mun hafa þá þýðingu að við erum komin með eitthvað í hendurnar sem við getum látið vita af. Við á þessu svæði stöndum saman á bak við þetta. Við höfum forskot á aðra og getum sýnt fram á að samfélögin hérna vilja þessa þróun og getum farið með þetta út í umheiminn á þann hátt. Á sama tíma er eitt af okkar hlutverkum að fjölga körfunum fyrir eggin á svæðinu og fjölga atvinnutækifærum. Auðvitað er flugvöllurinn langstærsti atvinnuveitandinn og það sem tengist flugvellinum. Okkur langar að fá meira út úr flugvellinum og margþætta þjónustu. Við viljum líka sjá fjölbreyttari störf, þannig að ef einhver skakkaföll verða að þau hafi ekki jafn dramatísk áhrif á þetta samfélag í nágrenni flugvallarins. Samfélagið er fyrst og fremst að fá fjölbreyttari atvinnutækifæri og tímastillta áætlun miðað við hvað samfélagið þarf að koma með á sama tíma. Ef þessi fjölgun verður á atvinnutækifærum og íbúum á þessu svæði, þurfa sveitarfélögin, ríkið og fleiri að vera tilbúin með að veita þá þjónustu sem þarf, eins og skóla, heilsugæslu og svo framvegis.“
Getur þú nefnt einhverjar tölur? Þetta er viðamikil áætlun.
„Hún er það og það þarf að stilla hana af miðað við uppbyggingaráætlanir flugvallarins. Það sem við sjáum fyrir okkur er að hér geti orðið til hérna um 400.000 fermetrar sem munu byggjast hér upp. Þetta eru um 5.000 störf sem verða til og við erum að horfa til langs tíma eða til ársins 2050. Þá erum við að horfa á 700 störf í uppbyggingu í gegnum allt ferlið. Þetta eru risastórar tölur. Kostnaðurinn við þessa heildar uppbyggingu sem við áætlum er rúmlega 130 milljarðar króna.“
Hvaðan munu þeir peningar koma?
„Þeir koma frá fjárfestum. Ef að opinberir aðilar ætla að fjárfesta í því sem að þarf til hérna kemur það frá ríkinu eða sveitarfélögum. Þetta eru allra helst fjárfestar sem við viljum fá á svæðið, bæði innlendir og erlendir.“
Þetta er veruleg áskorun fyrir sveitarfélögin að taka á móti þessu. Það er ekki ólíklegt að íbúafjölgun, sem hefur verið fordæmalaus, haldi áfram. Þessi áætlun kallar á fleira fólk.
„Það er afskaplega líklegt. Það er líka það sem við höfum verið að reyna að komast að, hvað sveitarfélögin þurfa að vera tilbúin með. Flugvöllurinn skapar gríðarlega mörg störf ár frá ári og tengist fjölda ferðamanna sem koma til landsins og þetta er viðbót við það. Á sama tíma er þetta mikil fjölbreytni og ný tækifæri.“
Það hefur oft verið talað um mikla einhæfni starfa á svæðinu.
„Það er það sem við viljum fara eftir er meiri fjölbreytni, þekking og sköpun sem tengist þessari uppbyggingu.“
Sjálfbærni er lykilorð hjá ykkur.
„Sjálfbærni er grunnstefið í allri okkar áætlun. Það er hugmyndafræðin á bak við þessa uppbyggingu, hvað varðar umhverfismálin og iðngarðinn sem er verið að leggja til. Helguvíkurhöfn byggir á sjálfbærninni. Einnig sjálfbær vöxtur til framtíðar við uppbygginguna sem er verið að leggja til, að það sé ekki alltaf verið að elta skottið á sér.“
Þið hafið kynnt þetta sem samstarf margra aðila, sveitarfélaga, KADECO og ríkisins, auk fleiri aðila. Hvernig hefur það gengið?
„Það hefur gengið heilt yfir vel. Það hefur auðvitað verið tekist á um ýmsa hluti. Það eru allskonar hagsmunir undir í þessu ferli. Það er algjör samstaða um það sem við erum að tefla fram. Það er mjög hollt að fara í gegnum þessi samtöl og samstarfið er einstakt. Það er ekkert annað svæði á Íslandi sem er að vinna á sama hátt og við erum að gera hérna með þessum tveimur sveitarfélögum og flugvellinum.“
Ertu bjartsýnn á viðbrögð og að ykkur verði ágengt?
„Við erum mjög bjartsýn, sérstaklega í ljósi þess að við erum að finna fyrir áhuga nú þegar, bæði frá aðilum sem vilja þróa svæði fyrir íbúabyggð á Ásbrú, aðilum sem leita að lóðum til að byggja hótel. Við erum í samtölum við allskonar fyrirtæki, fjárfestingarsjóði og einkafyrirtæki sem eru að sýna þessu svæði mikinn áhuga. Í beinu framhaldi af þessari kynningu hér heima erum við að fara á alþjóðlegar ráðstefnur og láta vita af þessu og höfum enga trú á öðru en þessu verði sýndur mikill áhugi.“
Þið metið það svo að hnattstaða Keflavíkurflugvallar sé gríðarlega sterkur punktur?
„Já og tengingar frá Keflavíkurflugvelli í austur og vestur. Auðnin og svæðið í kringum flugvöllinn er gríðarlega spennandi og höfnin þar rétt við. Græn orka og Ísland í fararbroddi þar. Það eru hugmyndir varðandi rafeldsneyti fyrir flugvélar og við getum verið í fararbroddi í svo mörgu. Það eru ofsalega spennandi tímar framundan.“