NÝSKÖPUN 2000, SAMKEPPNI UM GERÐ VIÐSKIPTAÁÆTLANA
í Reykjanesbæ 8. febrúar nk.Nýsköpunarsjóður, KPMG, Morgunblaðið og Viðskiptaháskólinn standa fyrir námskeiði í samvinnu við Markaðs- og atvinnumálaskrifstofuna í Reykjanesbæ 8. febrúar n.k. sem markar upphafið að samkeppninni Nýsköpun 2000 en sú keppni miðar að því að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við að kanna raunhæfi viðskiptahugmynda. Margir ganga með góðar hugmyndir í maganum sem ekki verða að veruleika af því fólk veit ekki hvar á að byrja eða vegna þess að ekki var vandað til undirbúnings. Samkeppnin hefst með námskeiði í Kjarna, Reykjanesbæ, 8. febrúar kl. 17:00 þar sem þátttakendur fá í hendur handbók og reiknilíkan sem nýtist við gerð áætlunarinnar auk þess sem boðið er upp á síma- og tölvupóstþjónustu í framhaldinu. Kennarar á þessu námskeiði eru fjármálasérfræðingar KPMG og tekur það um 5 tíma. Þess má geta að námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu þar sem Nýsköpunarsjóður og Byggðastofnun greiða fyrir það og boðið verður upp á léttan kvöldverð.Námskeiðin verða haldin á 8 stöðum á landinu og skilafrestur áætlana rennur út 10. apríl. Heildarverðlaun á landsvísu eru 2 milljónir króna auk þess sem vinningshafinn fær ráðgjöf hjá fjármálasérfræðingum KPMG í heilt ár á eftir. Þessu til viðbótar verða veitt sérstök hvatningarverðlaun fyrir bestu áætlunina af okkar svæði en Sparisjóðurinn í Keflavík hefur ákveðið að veita vinningshafanum af Suðurnesjum 100 þús. kr. viðurkenningu fyrir vel unnið verk. Allar nánari upplýsingar er að fá á Markaðs- og atvinnumálaskrifstofunni í síma 421-6750 og á heimasíðu Nýsköpunarsjóðs www.nsa.is þar sem skráning fer jafnframt fram.Það eina sem þú þarft að hafa er hugmynd!