Nyrsti gígurinn dauður
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vekur athygli á því í færslu á fésbókinni í dag að nyrsti gígurinn í eldsumbrotunum í Fagradalsfjalli sé dauður. Gígurinn varð til eftir að sprunga opnaðist og gosopið myndaðist á öðrum degi páska.
„Nú á mánaðarafmæli eldgossins virðist nokkuð ljóst að nyrsti gígur gossprungunnar sé þagnaður. Ný vefmyndavél RÚV sýnir norðurgígana mjög vel og á henni sést að ekki vottur að gufu stígur upp af gígnum og engin bjarmi var í myrkri næturinnar. Er hrauntjörnin því horfin úr gígskálinni. Gígurinn opnaðist á hádegi á öðrum degi páska. Þessi gígur var mjög líflegur og reis nokkuð hratt fyrstu dagana. Var hann á endanum orðinn töluvert hærri í landslaginu en önnur gosop. Slíkar aðstæður geta ýtt undir það að kvikan á erfiðara með að komast upp um þetta tiltekna gosop og hefur flæðið því fundið sér auðveldari leið út um önnur op,“ segir í færslunni.