Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýr varnargarður rís við Grindavík og sá eldri hækkaður
Frá framkvæmdum við nýja varnargarðinn við Grindavík. Mynd: Verkís
Mánudagur 5. febrúar 2024 kl. 14:35

Nýr varnargarður rís við Grindavík og sá eldri hækkaður

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan 800 metra langan varnar- og leiðigarð við Grindavík. Garðurinn er austan við varnargarðinn sem byggður var í byrjun árs.

Vinna við varnar- og leiðigarðinn hófst um helgina en garðinum verður að mestu rutt upp með jarðýtum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Framkvæmdir hófust á sunnnudagsmorgun. Þær snúa að því að lengja garðinn austanmegin og búa til nýjan legg þar sem verður ýtt upp. Þá erum við einnig að hækka núverandi varnargarð sem búið var að setja upp og hraunið rann eftir,“ segir Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá VERKÍS, sem hefur umsjón með verkefninu.

Garðurinn sem verið er að ryðja upp að austanverðu er um 800 metra langur og mun liggja í boga í átt til sjávar.

Þá er verið að hækka garðinn norðan við bæinn en hraunið rann með honum þann 14. janúar. Sá garður var fimm til sex metra hár að jafnaði en það liggur ekki fyrir hversu hár hann verður.

Á vefmyndavélum má sjá að vinnuvélar eru að aka yfir hraunið á móts við gróðurhús ORF líftækni. Þetta staðfestir Ari og segir að hraunið hafi verið mjög þunnt þar og þar hafi því hentað að leggja vinnuslóða yfir hraunið.

Ari segir að ekki sé að fullu ljóst hvað vinnan við nýja austurgarðinn taki langan tíma. Áætlun gerir ráð fyrir tveggja til þriggja vikna framkvæmdatíma. Frá og með deginum í dag, mánudegi, verður sett á sólarhringsvakt við framkvæmdina og tækjum fjölgað.

Framkvæmdin hófst á sunnudag með fjórum jarðýtum og beltagröfum en í dag eru að bætast við búkollur, þannig að vinna er hafin af fullum krafti við áframhaldandi varnar- og leiðigarða.