Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýr tónlistarskóli og bókasafn í Grindavík 2014
Þriðjudagur 18. desember 2012 kl. 10:40

Nýr tónlistarskóli og bókasafn í Grindavík 2014

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ákveðið að sameina almennings- og skólabókasafn í nýju húsnæði sem fyrirhugað..

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ákveðið að sameina almennings- og skólabókasafn í nýju húsnæði sem fyrirhugað er að byggja við grunnskólann. Jafnframt verður nýtt húsnæði tónlistarskólans í sömu byggingu.

Markmið sameiningarinnar er að hagræða í rekstri og bæta þjónustu bókasafns fyrir skóla og almenning. Bæjarstjórn hefur jafnframt ákveðið að flytja starfsemi Tónlistarskóla Grindavíkur í nýtt húsnæði sem fyrirhugað er að byggja við Grunnskóla Grindavíkur. Markmið þeirrar breytingar er að auka samstarf skólanna enn frekar, efla samfellu í námi nemenda í grunn- og tónlistarskóla og stuðla að aukinni grósku í menningarlífi Grindvíkinga.

Þegar þessu verkefni er lokið verður til rými í skólanum sem mun nýtast undir starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Þrumunnar. Þegar öll þessi starfsemi; grunnskóli, tónlistarskóli, bókasafn og félagsmiðstöð, er komin undir sama þak skapast miklir möguleikar í eflingu á menningartengdri starfsemi fyrir allar kynslóðir samfélagsins og húsnæðið mun verða suðu-pottur lærdóms, tómstunda og menningar öllum til heilla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hönnun:
Í kjallara verða tæknirými og geymslur fyrir grunnskólann, bókasafnið og tónlistarskólann. Á 1. hæð verður bókasafn. Gert er ráð fyrir að á bókasafninu verði góð vinnuaðstaða fyrir gesti, skrifstofa, gott lestrarherbergi og starfsmannaaðstaða. Á safninu verður verkum Guðbergs Bergssonar gerð góð skil og hægt verður að nálgast öll hans verk á aðgengilegan hátt. Á 2. hæð verður tónlistarskóli. Gert er ráð fyrir að í tónlistarskólanum verði 2 skrifstofur, vinnuaðstaða fyrir kennara, 4 kennslustofur, hljóðver, ásamt sal sem hægt er að skipta í tvær einingar.

Stærðir:
Kjallari: Nettóflötur 167,8 m²
1. hæð: Nettóflötur 424,5 m²
2. hæð: Nettóflötur 375,2 m²
Vert er að taka fram að um er að ræða drög sem eru í vinnslu og geta teikningar breyst lítillega við fullnaðarhönnun.

Kostnaður:
Heildarkostnaður framkvæmda er áætlaður um 350 milljónir króna.
Tímaáætlun: Áætlað er að verkið verði boðið út á fyrri hluta árs 2013. Framkvæmdir muni hefjast í júní 2013 og verkinu verði lokið fyrri hluta árs 2014.