Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 6. maí 1999 kl. 13:05

NÝR STÆRRI MIÐBÆR MEÐ YFIRBYGGÐRI GÖNGUGÖTU OG AUKNU VERSLUNARRÝMI

Bjarni Marteinsson, arkitekt hjá Arkitektastofu Suðurnesja hefur kynnt nýjar róttækar hugmyndir að verulegri stækkun miðbæjar Keflavíkur. „Við erum að tala um nýja ímynd, nýtt útlit og nýja og fjölbreytta möguleika“, segir Bjarni en hann kynnti í síðustu viku þessar hugmyndir sínar fyrir aðilum á Hafnargötunni. Hugmyndir að breyttum og nýjum miðbæ kviknuðu vegna óska bæjaryfirvalda um staðsetningu hreinsistöðvar á þessu svæði og hennar vegna verður að gera nokkra landfyllingu til sjávar. Samfara umræðu við hafnarstjóra um uppfyllingu þessa kviknaði sú hugmynd að gera nokkuð meira úr henni þannig að „Ægisgatan“ (gatan neðan eða austan megin við Hafnargötu) gæti færst utar og um leið skapað meira rými og möguleika austanmegin við húsasamstæðu við Hafnargötu 15 til 37. Húsaröðin sjávarmegin hefur lengi verið þyrnir í augum margra enda ekki kræsileg, þó einstaka lóðarhafar séu byrjaðir að nýta þarna byggingarmöguleika. Hugmyndir Bjarna ganga út á það hvernig hugsanlega megi nýta þessa nýju möguleika til sjávar ef nýtt deiliskipulag verður samþykkt á þessum nótum, en það hefur þegar fengið jákvæðar undirtektir í skipulagsnefnd og hjá hafnarstjóra. Bjarni hefur kynnt þessa hugmynd sína hvernig byggja megi þetta svæði upp sem heild, með sameiginlegt hagsmunamál í huga og um leið skapa grundvöll fyrir framtíðar byggingarsvæði fyrir miðbæ Keflavíkur. „Hugmyndin gengur aðallega út á það að auka til sjávar rými verslana á 1. hæð um meira en helming, tengja þetta rými saman með yfirbyggðri göngugötu sjávarmegin og með göngutengingar með Hafnargötunni. Allt þetta rými gæti verið undir einu rektrarhatti eða að hluta til undir núverandi verslunum eða öðrum rekstri, jafnframt mætti tengja við þessa nýju göngugötu háhýsi fyrir íbúðir eða skrifstofur, jafnvel með verslun á neðstu hæð. (Á meðfylgjandi teikningu má sjá gert ráð fyrir fimm háhýsum með göngugötu á milli). Sjávarmegin undir verslunarahæðinni myndast heil hæð fyrir lager-verslun eða bílageymslur, en bílastæði verða næg sjávarmegin undir skjólvegg til sjávar eða innanhúss og einnig er gert ráð fyrir bílastæðum norðan við húsaröðina“. Bjarni leggur ríka áherslu á að rétti tíminni væri að skoða þessa möguleika núna ef þeir ættu ekki að glatast til framtíðar sem miðbæjarkjarni. Staðsetningar og útsýni til sjávar væri frábært og ætti ekki sinn líkan á landinu ef úr yrði. Þróun verslunar væri sú sérstaklega á norðlægari slóðum að tengja saman með yfirbyggðum göngugötum og þarna við Hafnargötuna (sjávarmegin) væri unnt að bjóða upp á mjög áhugaverða göngugötu með möguleika á frábæru útsýni til sjávar tengda mismunandi smærri og stærri verslunum, bíó, hótel, veitingastaðir og fleira. Bjarni sagði að einnig mætti vel hugsa sér stóra matvöruverslun sem setti aukið líf í allt saman. Allt þetta mætti síðan tengja við Hafnargötuna með tengingum gegnum núverandi verslanir eða stærri aðalinngöngum. Varðandi sjógang á þessu svæði var því til svarað að með réttri lögun brimbrjóta í jarðri fyllingar ætti að vera mögulegt að fyrirbyggja slíkt að mestu. „Niðurstaða fundar með húseigendum á Hafnargötunni var sú að að hvetja til opinnar umræðu um þetta mál og velja vinnuhóp til frekari skoðunar á málinu“, sagði Bjarni. Aðspurður um hvort sá möguleiki að fá stóran verktaka í málið sagði hann það vissulega fýsilegan kost og þá hugsanlega með stóran verslunaraðila með sér. „Skipulagsnefnd bæjarins hefur tekið mjög jákvætt í þessar hugmyndir og hefur samþykkt sín vegna að færa Ægisgötuna utar. Það eru ekki mörg bæjarfélög sem hafa möguleika á að betrumbæta miðbæinn eins og hægt er að gera í Keflavík. Nú höfum við tækifæri til að hugsa lengra til framtíðar“, sagði Bjarni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024