Nýr snjóplógur á Keflavíkurflugvelli tekin til notkunar í dag
Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hefur keypt nýtt snjóruðningstæki af öflugustu gerð til notkunar á flugvellinum.
Tækið er af gerðinni OSHKOSH P-2526, framleitt í borginni Oshkosh í Wisconsin í Bandaríkjunum, en fyrirtækið er leiðandi í slíkri framleiðslu. Tækið er búið 470 hestafla Caterpillar-vél, fjórhjóladrifið með stýringu á öllum hjólum og íssköfu undir því miðju auk tengibúnaðar fyrir plógtönn og vélsóp. Með plógtönn að framan og vélsóp í eftirdragi myndar tækið svonefnt sameyki sem gerir fernt í senn; ryður, skefur, sópar og blæs.
Nýja Oskosh-tækið er fyrsta tækið sem Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar kaupir fyrir nýstofnaða flugvallarþjónustudeild sem annast m.a. snjóruðning og hálkuvarnir á flugvellinum og kostar það tæpar 25 milljónir króna með aðflutningsgjöldum.
Flugvallarþjónustudeildin starfrækir 35 sérhæfð tæki og er meðalaldur þeirra um 22 ár. Elsta tækið, sem einnig er af Oskhos-gerð, verður 50 ára á þessu ári og önnur þrjú eru 48 ára. Þrátt fyrir háan aldur mynda þessi fjögur öflugu snjóruðningstæki framvarðasveit við hreinsun flugbrautanna ásamt þremur nýrri tækjum. Lykillinn að svo góðri endingu eru gæðasmíð og öflugt viðhald, sem starfsmenn flugþjónustudeildarinnar annast að öllu leiti sjálfir, sem og færni í beitingu og meðferð tækjanna. Með sex sameykjum má hreinsa 3,3 km langa flugbraut í 40 m breidd á 15 mínútum. Önnur tæki deildarinnar eru snjóblásarar, hjólaskóflur og dreifarar fyrir sand og afísingarvökva. Öll tækin er í eigu Bandaríkjaflota og leigð af honum en ljóst er að endurnýja þarf a.m.k. 80 % tækjabúnaðarins á allra næstu árum. Heildarverðmæti hvers sameykis nemur um 55 milljónum króna.
Mynd: Þessi er orðinn gamall og verður leystur af hólmi í dag með nýjum plóg sem kostar litlar 25 milljónir króna.