Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýr slökkvibíll til BS og úrbætur í húsnæðismálum
Föstudagur 19. apríl 2013 kl. 09:44

Nýr slökkvibíll til BS og úrbætur í húsnæðismálum

Margt góðra gesta var í sérstöku afmælishófi Brunavarna Suðurnesja um nýliðna helgi þar sem 100 ára afmælinu var fagnað. Um 400 gestir mættu í hófið sem haldið var í nýju slökkviliðsminjasafni sem opnað hefur verið í samstarfi við Byggðasafn Reykjanesbæjar í Ramma á Fitjum.

Brunavarnir Suðurnesja reka eitt af öflugustu slökkviliðum landsins og sjá einnig um sjúkrabílaakstur á Suðurnesjum, utan Grindavíkur.

„Faglega þá hafa Brunavarnir Suðurnesja og slökkvilið aldrei verið öflugri en í dag. Það er ekki þar með sagt að við séum á endapunkti og þar ber húsnæðismál hæst. Það þarf að leysa þau mál,“ segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir á 100 ára afmæli BS.

Stjórn Brunavarna Suðurnesja kom saman ásamt varastjórn á 100 ára afmælinu sl. mánudag. Hátíðarfundur var haldinn í nýju slökkviliðssafni á Fitjum. Þar var m.a. tekin ákvörðun um að endurnýja fyrsta útkallsbíl slökkviliðsins en það er stefna stjórnar BS að fyrsti útkallsbíll verði aldrei eldri en 10 ára. Það mun taka um eitt og hálft ár að fá nýjan bíl.

Jón á von á því að húsnæðismál Brunavarna Suðurnesja leysist fljótlega. Verið er að skoða nokkra möguleika. Einn af þeim er að slökkvistöðin verði flutt í slökkvistöðina á Keflavíkurflugvelli og að sú bygging fari út fyrir girðingu flugvallarins. Jón segir það sína skoðun að slökkviliðið fyrir Keflavíkurflugvöll eigi að vera samrekið með slökkviliði Brunavarna Suðurnesja. Það væri farsælast fyrir sveitarfélögin og einnig fyrir flugvöllinn.

Í dag eru 25 fastráðnir starfsmenn hjá Brunavörnum Suðurnesja og 20 í hlutastörfum. Brunavarnir Suðurnesja og Slökkvilið Sandgerðis eru í dag samrekin og um áramót er gert ráð fyrir að stofnað verði byggðasamlag um reksturinn samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Slökkviliðsminjasafn var opnað á hundrað ára afmæli Brunavarna Suðurnesja í húsnæði Byggðasafns Reykjanesbæjar, gamla Rammahúsinu, um nýliðna helgi. Á safninu eru gamlir slökkvibílar og annar búnaður frá slökkviliðum á Íslandi. Safnið og sýningin verður í húsinu a.m.k. næstu þrjú árin og verður opin um helgar fyrir almenning. Nánar verður fjallað um safnið í næsta blaði og birt viðtal við þá sem unnu að verkefninu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjórn og varastjórn Brunavarna Suðurnesja. Mynd: Oddgeir Karlsson