Nýr sjúkrabíll kominn til Brunavarna Suðurnesja
Brunavarnir Suðurnesja fengu afhentan nýjan sjúkrabíl fyrr í mánuðinum frá Rauða kross Íslands. Sjúkrabíllinn er af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter og var bíllinn innréttaður og breyttur af Sigurjóni Ólafsssyni ehf. á Ólafsfirði að undangengnu útboði í samstarfi við Rauða krossinn og sjúkraflutningamenn.
Sjúkrabíllinn er afturhjóladrifinn sem gerir hann aðeins lægri en eldri bílana og snarpari í snúningum. Undanfarin ár hafa verið notaðir bæði Ford Econoline og Bens Sprinter sjúkrabílar hjá BS og hafa verið skiptar skoðanir um hvorir bílarnir eru betri en sá nýi lofar mjög góðu. Sjúkrabílar hjá BS eru búnir öllum þeim fullkomnasta búnaði sem völ er á og eru í raun og veru slysa- og bráðastofa á hjólum.
Sjúkrabíllinn hefur nú þegar verið tekin í notkun og láta sjúkraflutningamenn hjá BS mjög vel að honum.