Nýr og glæsilegur leikskóli tekinn í notkun
Nýr og glæsilegur leikskóli var vígður í Grindavík á laugardag en hann ber nafnið Laut. Eldri leikskólinn Laut var stofnaður 1997 og var 230 fm að stærð en nýja Laut er um 675 fm að stærð og þar er rými fyrir um 130 börn, á eldri leikskólanum var hægt að vista um 70-80 börn.
Fjölmenni var við vígsluna og af tilefninu fékk Laut margar góðar gjafir. Foreldrafélaga leikskólans kom færandi hendi og gaf Laut fána með einkennisorðum skólans, farsíma og dvd spilara. Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, afhenti Laut mynd frá fyrstu skóflustungunni og vitaskuld eina af skóflunum sjálfum sem notuð var til verksins.
Fyrsta skóflustungan að Laut var tekin í maí 2005 og því hefur aðeins tekið um eitt ár að fullklára leikskólann sem er hinn glæsilegasti. Grindin hf sá um byggingu leikskólans en heildarbyggingarkostnaður með lóð var um 150 milljónir króna. Nesprýði sá um frágang á lóð leikskólans sem er um 5600 fm og sá Barnasmiðjan um leiktækjagerðina.
Arkitekt leikskólans er Ingþór Björnsson hjá Verkfræðistofu Suðurnesja en starfsmenn leikskólans komu að hönnun hans strax á fyrstu stigum og mótuðu grunn hugmynd hans. Eftirlit með byggingarframkvæmdum sá Guðmundur Einarsson um frá Verkfræðistofu Suðurnesja.
Nú eru 22 starfsmenn á laut í 15 stöðugildum en búast má við að þegar leikskólinn verður fullsetinn að starfsmönnum fjölgi nokkuð og stöðugildi verði um eða yfir 20.
Eftir opnun Lautar hefur framboð á leikskólaplássi aldrei verið meira en nú og eru laus rými fyrir 50-70 börn.
Sjá myndasafn frá opnun Lautar