Nýr og endurbættur Hrafn Sveinbjarnarson
- kominn til heimahafnar í Grindavík.
Eftir sumarlanga dvöl í skipasmíðastöð í Stettin í Póllandi er Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 kominn til heimahafnar í Grindavík. Það eru engar ýkjur að segja að Hrafninn sé nánast eins og nýtt skip enda er hann gjörbreyttur eftir lengingu og endurbætur. Sagt er frá þessu á vefsíðu Grindavíkurbæjar.
Má í raun segja að nú sé Hrafninn eins og hann hafi alltaf átt að vera. Þegar skipið var smíðað á sínum tíma var búið að teikna það 57 metra að lengd, en fyrri eigendur áttu ekki næga úreldingu eins og það var kallað og því þurfti að stytta hann. Í samtali við kvótinn.is sagði Hilmar Helgason skipstjóri að hann væri í raun búinn að vera að bíða eftir þessum breytingum í 20 ár. Þrátt fyrir styttingu við smíðar hafi ekkert verið bakkað með vélarafl og togkraft og nú sé loksins hægt að nýta það afl sem skipið býr yfir af fullum krafti.
Alls var skipið lengt um 15,4 metra og munar um minna. Sú aðgerð fór þannig fram skipið var hlutað í sundur rétt fyrir aftan brúna og svo var 150 tonna forsniðið stálstykki hýft í gatið. Síðan var allt skipið tekið í gegn frá A-Ö. Hreinsað var innan úr millidekki og lest og allt sandblásið og víða gamlir og slitnir partar rifnir burt. Alls fóru um 90 tonn af stáli í skipið til viðbótar, svo að alls var verið að vinna með um 240 tonn af stáli í þessari miklu aðgerð. Plássið í lestinni tvöfaldast við breytingarnar, fer úr 240 tonnum af flökum í 480 tonn og þá hefur frystigetan verið aukin í samræmi við þessar breytingar.
Borðsalurinn er nýr að hluta og bættist m.a. við kalt borð fyrir áhöfnina, enda verða menn að hugsa um hollustuna þegar þeir vinna erfiðisvinnu alla daga.
Við þessar miklu breytingar batnar öll aðstaða fyrir áhöfn umtalsvert, bæði til vinnu og hvíldar. Við bætist ný setustofa, tveir klefar og tvær stórar og vel rúmar stakkageymslur, ein fyrir efra dekk og önnur fyrir vinnsluna. Hilmar bætti svo við: „Allt ryð var upprætt í gamla hlutanum svo okkur líður svolítið eins og við séum að koma heim með nýsmíði að mörgu leyti. Skipið er í flokkun hjá Norsk Veritas og þeir sköffuðu eftirlitsmann allan tímann sem var mjög harður og gaf engan afslátt á einu eða neinu."
Hrafninn er þó ekki tilbúinn til veiða. Nú tekur við um fimm vikna vinna við að púsla saman vinnslubúnaðnum og koma honum fyrir um borð. Var tekin meðvituð ákvörðun um að sú vinna færi fram hér heima til þess að nýta íslenskt og grindvískt vinnuafl og þekkingu. Hrafninn liggur nú við bryggju við Suðurgarð en þangað flutti Þorbjörn nýlega löndunaraðstöðu sína fyrir frystitogara og í spilunum eru stór áform um glæsta uppbyggingu á reitnum þar sem beinamjölsverksmiðjan stóð áður. Af þessum flutningum skapast umtalsverð hagræðing og ófáir kílómetrar í akstri enda öll þjónusta við skipin nú nánast í kallfæri frá bryggjunni.
Sigurður Jónsson, 1. stýrimaður, sýndi fulltrúum bæjarins hið ,,nýja" skip og voru þeir félagar kampakátir með breytingarnar. Til stendur að opna skipið fyrir almenningi þegar allri vinnu er lokið.