Nýr oddviti Sjálfstæðismanna styður núverandi bæjarstjóra
-Margrét Sanders verður nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
Margrét Sanders hefur gefið kost á sér í 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ í síðustu viku var samþykkt með miklum meirihluta að viðhafa uppstillingu og tilkynnti Margrét Sanders þá að hún gæfi kost á sér í 1. sæti á lista. Margrét er formaður Samtaka verslunar og þjónustu og einn eigenda ráðgjafafyrirtækisins Strategíu.
Margrét sagði aðspurð að hún myndi ekki sækjast eftir bæjarstjórastöðunni en hún hafi fengið þá spurningu frá all nokkrum. „Að öllu óbreyttu myndi ég styðja það að núverandi bæjarstjóri, Kjartan Már Kjartansson, héldi áfram. Hann hefur staðið sig vel,“ sagði Margrét í samtali við Víkurfréttir. Þegar Sjálfstæðismenn voru í meirihluta í þrjú kjörtímabil frá árinu 2002 til 2014 var oddviti flokksins, Árni Sigfússon bæjarstjóri. Nýr meirihluti í Reykjanesbæ auglýsti starf bæjarstjóra eftir síðustu kosningar og réð Kjartan Má sem þykir hafa staðið sig vel í erfiðu verkefni.
Ljóst er að það verður mikil endurnýjun á lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Einhugur mun þó vera um að Margrét Sanders skipi oddvitasætið. Allnokkrir hafa síðan áhuga á næstu sætum.
Fjórir einstaklingar hafa ákveðið að bjóða sig í 2.-3. sæti. Þetta eru þau Baldur Þórir Guðmundsson, bæjarfulltrúi og útibússtjóri Sjóvá undanfarin misseri, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, rekstrar- og mannauðsstjóri hjá OMR verkfræðistofu en hún hefur verið aðalmaður í Fræðsluráði Reykjanesbæjar fyrir hönd flokksins síðasta kjörtímabil, Ísak Ernir Kristinsson, varabæjarfulltrúi og háskólanemi og Ingigerður Sæmundsdóttir, varabæjarfulltrúi og kennari. Aðrir sem hafa gefið út að þeir vilji sæti á listanum er Jóhann Sigurbergsson í 4. sæti en hann hefur verið á listanum síðustu tvö kjörtímabil, m.a. setið í Umhverfis- og skipulagsráði.
Í efstu sætum flokksins á síðasta kjörtímabili verður mikil endurnýjun því auk Árna Sigfússonar hefur Böðvar Jónsson ákveðið að draga sig í hlé en hann hefur verið viðloðandi bæjarmál síðan 1994. Magnea Guðmundsdóttir sem var í 2. sæti listans lést á síðasta ári og því eru þrír efstu frá síðustu kosningum ekki á listanum fyrir næstu kosningar.
Stjórn Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ hefur boðað til Fulltrúaráðsfundar þann 1. febrúar nk. Þar verður kosin uppstillingarnefnd sem mun fá það verkefni að gera tillögu að skipan framboðslista fyrir kosningarnar í vor.