Nýr meirihluti myndaður í Suðurnesjabæ
Næsti fundur bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar verður haldinn í ráðhúsinu í Garði á morgun, fimmtudaginn 11. júlí 2024, þar sem meirihlutasamstarf D-, O- og S-lista og yfirlýsing um samstarf og áherslur listanna verður kynnt.
Eins og Víkurfréttir hafa fjallað um slitnaði upp úr meihlutasamstarfi D- og B-lista í byrjun júnímánaðar þegar upp kom ágreiningur um tillögu Antons K. Guðmundssonar (B-lista) og Magnúsar Sigfúsar Magnússonar (D-lista) varðandi staðsetningu gervigrasvallar í Suðurnesjabæ. Tillagan var samþykkt á fundi bæjarráðs þann 29. maí 2024 en hún var í andstöðu við tillögu stýrihóps sem hafði verið skipaður að beiðni bæjarráðs vegna málsins.
Greitt var atkvæði um tillögu bæjarráðs á fundi bæjarstjórnar þann 5. júní og féllu atvæði þannig að fimm bæjarfulltrúar sem búa í Sandgerði kusu með staðsetningu gervigrasvallarins í Sandgerði en þeir fjórir bæjarfulltrúar sem búa í Garði greiddu atkvæði á móti.
Bæjarstjórnarfundurinn hefst klukkan 17:30 á morgun, fimmtudag, og fyrsta mál á dagskrá er kosning forseta bæjarstjórnar til eins árs en síðasta mál á dagskrá er yfirlýsing um samstarf og áherslur D-, O- og S-lista. Dagskrá fundarins má sjá hér að neðan:
Almenn mál
1. Kosning forseta bæjarstjórnar til eins árs - 2205097
2. Kosning 1. og 2. varaforseta bæjarstjórnar til eins árs - 2205098
3. Bæjarráð - kosning í bæjarráð - 2005098
4. Kosning aðal-og varamanna í nefndir og ráð Suðurnesjabæjar til fjögurra ára -2205101
5. Kosning þingfulltrúa hjá samtökum sveitarfélaga og í stjórnir, sbr. C-lið, 44. Gr. samþykktar um stjórn Suðurnesjabæjar - 2205104
6. Yfirlýsing um samstarf og áherslur D, O og S-lista - 2407037