Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 18. maí 2001 kl. 10:53

Nýr kjarasamningur samþykktur

Kjarasamningur Starfsmannafélags Suðurnesja við Launanefnd sveitarfélaga var samþykktur í vikunni. Á kjörskrá voru 453 en 130 greiddu atkvæði. Þar af sögðu 105 já, eða 81% en 25 sögðu nei, eða 19%. Starfsmannafélagið á enn ósamið við ríkið fyrir hönd starfsmanna við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en næsti fundur verður föstudaginn 25. maí. Að honum loknum mun samninganefnd félagsins taka ákvörðun um hvort aflað verði verkfallsheimildar.
Þá hefjast í næstu viku viðræður við Hitaveitu Suðurnesja og Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning. Starfsmenn hitaveitunnar í starfsmannafélaginu voru áður aðilar að kjarasamningi félagsins við Launanefnd sveitarfélaga. Eftir að Hitaveita Suðurneska og Rafveita Hafnarfjarðar sameinuðust og sameiginlegt félag var gert að hlutafélagi í síðasta mánuði, geta félagsmenn starfsmannafélagsins ekki lengur verið aðilar að samningi við launanefndina.
Fram kemur í tilkynningu frá starfsmannafélaginu að starfsmannafélögin á Suðurnesjum og í Hafnarfirði muni koma sameiginlega að þessari kjarasamningsgerð og hafi skipað sameiginlega samninganefnd. Á sjötta tug manna starfar hjá Hitaveitu Suðurnesja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024