NÝR KÍNVERSKUR HAPPASÆLL
Samið hefur verið um smíði á nýju og fullkomnu netaskipi fyrir Happa ehf. í Keflavík og mun það koma í stað Happasæls KE 94. Fyrirhugað er að skipið verði tilbúið í byrjun ágúst á næsta ári og er samningaverð um 130 milljónir króna. Þá er miðað við að skipið sé komið til landsins.Hinn nýji Happasæll KE verður 28,95 metrar á lengd og 9 metrar á breidd og er skipið hannað af Skipatækni sem yfirbyggður vertíðarbátur. Gengið hefur verið frá kaupum á 900 hestafla Caterpillar aðalvél í skipið og í því verða tvær Cummins ljósavélar. Rúmgóðar íbúðir verða fyrir 14 manna áhöfn og í lestum skipsins verður rými fyrir 150 fiskikör af stærðinni 550 lítra. Netaspil og netaborð verður keypt hjá Sjóvélum og einnig hefur verið samið við Brimrúnu ehf. um kaup á Furono siglingar-, fjarskipta- og fiskileitartækjum.Skipið verður smíðað hjá Huangpu shipyard í Guangzhou (Kanton) í Kína en þar eru nú í smíðum nýtt nóta- og togskip fyrir útgerð Arnar KE og kúffiskskip fyrir Hraðfrystistöð Þórshafnar.Það er Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og fjölskylda hans sem gera Happasæl KE út til veiða en það skip var smíðað í Noregi árið 1963.