Nýr heilbrigðisráðherra tekur vel í lækningatengda ferðaþjónustu
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, segir unnið á fullu innan ráðuneytisins að nýta tækifæri lækningatengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Segir hún íslenskt heilbrigðiskerfi vel í stakk búið til að taka við sjúklingum erlendis frá. Afstaða hennar er mun jákvæðari en fyrirrennara hennar, Ögmundar Jónassonar. Þetta kemur fram í frétt á pressan.is.
Guðlaugur Þór Þórðarson hóf utandagskrárumræðu um sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu á Alþingi í dag. Í máli hans kom fram að tekjur af lækningatengdri ferðaþjónustu skapi hundruð milljóna króna tekjur á ári. Hins vegar gætu tekjurnar hlaupið á milljörðum nýti Íslendingar þau sóknartækifæri sem í boði eru. Það sé sérstaklega mikilvægt nú þegar niðurskurður í heilbrigðiskerfinu blasir við og hætta er á að við missum hæft starfsfólk úr landi. Benti hann meðal annars á að vegna neikvæðrar afstöðu Ögmundar hafi uppbygging heilsutengdrar ferðaþjónustu á Suðurnesjum tafist um eitt ár.
Álfheiður svaraði því til að skipuð hafi verið nefndi sem skoði hvernig nýta megi tækifæri í lækningatengdri ferðaþjónustu sem best. Von sé á tilskipun frá Evrópusambandinu sem gefur íbúum þess tækifæri til að leita lækninga yfir landamæri og taki vinna meðal annars mið af því. Þá hafi samstarf við Norðurlönd þróast í átt til tvíhliða viðræðna við Noreg, Svíþjóð, Færeyjar og Grænland um samstarfssamning á þessu sviði. Liggur samningur við Færeyjar þess efnis tilbúinn til undirritunar. Bætti hún því við að íslenskar heilbrigðisstofnanir búi við umframgetu og því sé mikilvægt að vera vakandi fyrir sóknarfærum á þessu sviði.