Nýr háskóli á Keflavíkurflugvelli: Sóknarlið í stað varnarliðs
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um stofnun félags um háskólarekstur á Keflavíkurflugvelli.
Runólfur Ágústsson, fyrrum skólastjóri Viðskiptaháskólans á Bifröst fer fyrir verkefninu og sagði hann að miklir og góðir möguleikar væru fyrir mennta- og rannsóknarstofnun á Keflavíkurflugvelli. Sérstakir möguleikar væru á svæðinu sökum nálægðarinnar við alþjóðaflugvöllinn.
Meðal samstarfaðila í verkefninu eru: Bláa Lónið hf, Geysir Green Energy ehf, Glitnir banki hf, Fasteignafélagið Þrek ehf, Fiskmarkaður Suðurnesja hf, Háskólavellir ehf, Hitaveita Suðurnesja hf, Icelandair Group hf, Klasi hf, Sparisjóðurinn í Keflavík og VBS Fjárfestingarbanki hf.
Markmið aðila með samstarfinu eru:
• Að efla alþjóðlegt háskólanám hérlendis, byggja upp háskólasamfélag á Keflavíkurflugvelli og laða þangað erlenda nemendur og kennara.
• Að efla háskólarannsóknir og kennslu hérlendis í samstarfi við Háskóla Íslands og Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni,sérstaklega á sviðum orkuvísinda og umhverfismála, jarðvísinda, sjálfbærrar þróunar, verkfræði, ferðamála, lífríki hafsins, norðurslóðarannsókna, samgöngumála, alþjóða- og öryggismála.
• Að efla starfstengt nám á háskólastigi í samræmi við tillögur starfsnámsnefndar menntamálaráðuneytisins frá síðasta sumri.
• Að styrkja Suðurnes með stofnun frumgreinadeildar til að hækka menntunarstig á svæðinu.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sagði táknrænt að nú, einmitt ári eftir að Bandaríkjaher tilkynnti um brotthvarf sitt, væri undirritaður samningur um stofnun háskóla á Vellinum gamla. „Vð erum sem sagt að smíða plógjárn úr sverðunum.“
Runólfur sló á svipaða strengi og Árni. „Varnarliðið er farið, en við erum í dag að byggja upp sóknarlið. Sóknarlið fyrir Suðurnes, sóknarlið fyrir íslenskt atvinnulíf og sóknarlið fyrir íslenskt samfélag!“
Búist er við því að hefja kennslu í frumgreinadeild strax í haust og efla starfið svo stig af stigi. Gera áætlanir ráð fyrir að árið 2009 muni um 1700 manns búa á gamla varnarsvæðinu í tengslum við háskólann.
VF-myndir/pket