Nýr hafnsögubátur kominn til Grindavíkur
Nýr hafnsögubátur, Bjarni Þór að nafni, lagði að bryggju í Grindavík í dag. Hann kom frá Vigo á Spáni þar sem hann var byggður, en áhöfnin lagði að baki um 1740 sjómílur á ferð sinni í heimahöfn.
Skipið reyndist afar vel á ferðalaginum, en síðasta spölin sigldu með því í föruneyti gamli hafnsögubáturinn Villi, björgunarskipið Oddur V. Gíslason og Árni í Tungu.
Nokkur fjöldi manns var á bryggjunni til að taka á móti nýja bátnum sem kemur í stað Villa sem er verulega kominn til ára sinna.
Varaformaður hafnarstjórnar, Guðbjörg Eyjólfsdóttir, bauð skipsverja velkomna eftir langa siglingu og óskaði Grindvíkingum til hamingju með fleyið. Eftir það blessaði Séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur Grindavíkur, skip og áhöfn og flutti bæn.
Að því loknu var boðið til kaffisamsætis í Saltfisksetri Íslands, en það var mál manna að þetta virtist hið besta fley.
Mynd/grindavik.is – Bjarni Þór leggur að bryggju. Sverrir Vilbergsson, hafnarstjóri, stendur í stafni.