Nýr göngustígur á milli Grindavíkur og Bláa Lónsins
hlýtur nafnið Ingibjargarstígur og Orkustígur.
Nýr göngustígur sem liggur frá Grindavík í Bláa Lónið var formlega opnaður í dag. Efnt var til nafnasamkeppni og hlaut stígurinn nöfnin Ingibjargarstígur frá Grindavík að Selskógi og Orkustígur frá Selskógi að Bláa Lóninu.
Ingibjargarstígur dregur nafn sitt af Ingibjörgu Jónsdóttur stofnanda Skógræktarfélags Grindavíkur. Hún var ritari og síðar formaður Kvenfélags Grindavíkur. Þegar Ingibjörg varð sextug, árið 1939, stofnuðu kvenfélagskonur sjóð henni til heiðurs. Ingibjörg ákvað að verja sjóðnum í að koma upp skógrækt í Grindavík í norðurhlíðum Þorbjörns. Þegar hún plantaði fyrstu hríslunum, vorið 1957, gaf hún svæðinu nafnið Selskógur.
Orkustígur vísar til þeirrar orku sem býr í iðrum jarðar. Starfsemi HS Orku hf og Bláa Lónsins byggir á fjölnýtingu jarðvarmans.
Alls tóku 62 þátt í nafnasamkeppninni. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Jón Á. Gíslason, Anna Klara Hreinsdóttir og Vilborg Hannesdóttir lögðu til að stígurinn yrði nefndur Orkustígur. Helga Þórarinsdóttir átti hugmyndina að nafninu Ingibjargarstígur. Þau fengu öll afhent verðlaun fyrir tillögur sínar, vetrarkort í Bláa Lónið og gjafakort á Lava, veitingastað Bláa Lónsins. Vinninghöfunum verður einnig boðið að skoða sýninguna Orkuverið Jörð sem staðsett er í Reykjanesvirkjun á Reykjanesi.
Leikskólabörn frá leikskólanum Laut í Grindavík voru fyrst til að ganga stíginn og aðstoðuðu við að klippa á borðann.
Stígurinn er samstarfsverkefni Grindavíkurbæjar, Bláa Lónsins og HS Orku hf. Samstarfsaðilarnir kosta gerð stígsins sem er um 5 kílómetra langur og mikil samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Verðlaunahafar ásamt Kristínu Maríu og leikskólakrökkunum. VF-myndir/JónJúlíus.