Nýr flugviti kostar 200 milljónir króna
– kostnaður greiddur af Alþjóðaflugmálastofnuninni og Mannvirkjasjóði NATO
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands undirrituðu nýverið samning um endurnýjun á VORTAC-flugvita Keflavíkurflugvallar.
Flugvitinn er sambyggður stefnuviti fyrir borgaralegt flug (VOR) og herflug (TACAN) ásamt fjarlægðarmæli (DME) og stendur norðvestan við flugbrautamót Keflavíkurflugvallar.
Flugvitinn var settur upp á sjötta áratug síðustu aldar en nú eru hættir að fást í hann varahlutir. Nýi búnaðurinn er keyptur af fyrirtækinu Thales í Þýskalandi og verður hann settur upp á nýjum stað á flugvellinum.
Kostnaður við verkefnið er um 200 milljónir króna sem að mestu leyti verða greiddar af Alþjóðaflugmálastofnuninni og Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Verklok eru áætluð í lok þessa árs.