Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Nýr blóðhundur kemur björgunarmönnum á sporið
Þriðjudagur 30. desember 2003 kl. 15:38

Nýr blóðhundur kemur björgunarmönnum á sporið

Pippý er nýjasti félaginn í Björgunarsveitinni Suðurnes. Hún er blóðhundur sem keyptur hefur verið frá Svíþjóð og fékk frelsi frá einangrunarstöðinni í Hrísey 17. nóvember sl. Pippý er því þriðji hundurinn í hundaflokki Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Þar fara þeir Halldór Halldórsson og Jóhann Bjarki Ragnarsson með þjálfunarmál. Auk blóðhundsins eru tveir sheffer-hundar, Aquaríus og Grandý. Sheffer-hundarnir eru svokallaðir víðavangs- og svæðisleitarhundar, sem einnig leita í snjóflóðum og rústum.
Blóðhundurinn er hins vegar eingöngu sporhundur sem leitar að týndu fólki. Þá lyktar hundurinn af flík af hinum týnda og rekur þannig slóð hans. Pippý hafði fengið grunnþjálfun í Svíþjóð af fyrrum    félaga í Björgunarsveitinni Suðurnes. Hér heima hafa verið lögð fyrir hana þrjú spor og að sögn Halldórs lofar þjálfunin góðu. Pippý er hins vegar á hóteli yfir áramótin, enda viðkvæm fyrir flugeldaskothríðinni um áramót.
Útbúin hefur verið góð aðstaða fyrir tvo leitarhunda hjá Björgunarsveitinni Suðurnes. Tvö gerði eru við höfuðstöðvar sveitarinnar í Njarðvík. Halldór segir mikinn tíma fara í hundaþjálfunina en hundarnir eru í þjálfun flesta daga ársins. Halldór og Jóhann Bjarki eru félagar í Björgunarhundasveit Íslands og þar er þjálfunin einnig stunduð af kappi. Fá verkefni hafa verið fyrir hundana síðustu mánuði, en það þýðir ekki að slakað sé á í þjálfun. „ Við vitum ekki hvenær kallið kemur og þá er vissara að bæði hundar og menn séu í toppþjálfun“, sagði Halldór Halldórsson að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024