Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 18. maí 2000 kl. 16:44

Nýr björgunarbíll í Vogana

Björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Vogum, Skyggnir, hefur fengið nýja öfluga björgunarbifreið til sveitarinnar. Bíllinn er GMC Suburban 2500 árgerð 1997 með 6,5 lítra Turbo díselvél. Bílnum var breytt sem björgunarbifreið hjá Ingvari Baldvinssyni og Jeppasmiðjunni á Selfossi en bíllinn er innfluttur lítið notaður frá Kanada. Þórður Guðmundsson hjá Skyggni sagði í samtali við Víkurfréttir að bifreiðin stæði sveitinni í 3.2 milljónum króna og ætti björgunarsveitin bílinn skuldlausan. „Bíllinn flytur níu menn og í honum er allur helsti björgunarbúnaður. Búnaður fyrir spil er bæði framan og aftan á bílnum og á næstu dögum verður settur fjarskipta- og staðsetningarbúnaður í bílinn“. Auðvelt er að leggja niður sæti og flytja þannig sjúkling í sjúkrabörum í bílnum. Björgunarsveitin í Vogum er mjög virk. Fjórtán félagar starfa að jafnaði með sveitinni en í sveitina eru skráðir 18 félagar. Skyggnis-menn hittast reglulega og viðhalda búnaði. Sveitin hefur yfir að ráða tveimur bifreiðum og auk þess er slöngu-bátur og fluglínutæki ávallt til taks. Unglingadeild er starfrækt í tenglsum við sveitina. Deildin heitir Tígull og inn í hana komu 15 krakkar fyrir tveimur árum. Nýverið komu fjórir ungliðar úr Tíglunum og gerðust nýliðar í Skyggni. Nú er aftur að koma vakning í unglingastarfið í Vogum og Tíglarnir fara senn að starfa aftur. Helsta fjáröflun Skyggnis er flugeldasala fyrir áramót og einnig er dósasöfnun stór þáttur í fjáröfluninni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024