Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýr 300 milljóna kr. sprengjuleitarbúnaður settur upp í Keflavík
Fimmtudagur 3. október 2002 kl. 08:52

Nýr 300 milljóna kr. sprengjuleitarbúnaður settur upp í Keflavík

Unnið er að uppsetningu á sérstökum sprengjuleitarbúnaði á Keflavíkurflugvelli sem taka á í notkun þann 1. janúar á næsta ári. Búnaðurinn sem kostar um 300 milljónir króna er settur upp af kröfu Evrópustofnunar Flugmálastjóra, en innan stofnunarinnar eru 38 ríki sem öll vinna nú að uppsetningu slíks búnaðar á flugvöllum, en mörg ríkjanna hafa lokið við uppsetningu búnaðarins. Stefán Thordersen forstöðumaður öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli segir að búnaðurinn verði notaður til að sprengjuleita allan lestarfarangur sem fer frá Íslandi til annara ríkja, til að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar: “Íslendingar þurfa svona búnað til að uppfylla kröfur um svokallað “one stop security" en það felur í sér að einungs þarf að leita einu sinni í farangri viðkomandi, þar sem leitinni á Íslandi er treyst. Ef þessi búnaður væri ekki til staðar ættum við á hættu að þurfa að sæta leit við komuna til annarra flugvalla þar sem við myndum millilenda."
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. kaupir búnaðinn en Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli hefur eftirlit með að öllum kröfum sé framfylgt, bæði varðandi búnaðinn og mannskapinn sem vinnur við hann. Stefán segir að nú þegar sé farið að þjálfa starfsmenn sem munu starfa við sprengjuleitina: “Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli mun sjá um að manna búnaðinn og það er gert ráð fyrir að 12-15 stöðugildi skapist í kringum þessi tæki."
Búnaðurinn er ekki enn kominn til landsins en von er á honum fljótlega. Framkvæmdir eru hafnar við nýjan sal á Keflavíkurflugvelli þar sem búnaðinum verður komið fyrir og segir Stefán að þær framkvæmdir gangi mjög vel. Íslenskir Aðalverktakar og Arnbjörn Óskarsson rafverktaki sjá um framkvæmdir og vill Stefán taka fram að mjög vel sé staðið að verki þar sem starfsemi í flugstöðinni er óbreytt á meðan á framkvæmdum stendur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024