Nýjum göngu- og hjólastíg í Vogum ætlað að tengjast Reykjanesbæ og höfuðborgarsvæðinu.
Nýr göngu- og hjólreiðastígur milli þéttbýlis í Vogum og Brunnastaðahverfis var formlega opnaður laugardaginn 26. júní sl. Með stígnum eykst öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem þurfa ekki lengur að ferðast eftir mjóum og hlykkjóttum Vatnsleysustrandarveginum.
Það var Hrafnhildur Bryndís Rafnsdóttir, Bryndís í Sunnuhlíð, sem opnaði stíginn formlega með því að klippa á borða á miðri leið að viðstöddu fjölmenni en margir notuðu tækifærið við opnun stígsins og komu til athafnarinnar gangandi eða hjólandi.
Bryndís í Sunnuhlíð klippir á borðann og opnar göngu- og hjólastíginn formlega.
Stígurinn milli Voga og Brunnastaðahverfis er 2,6 kílómetra langur. Hann er einnig breiður en malbikið er 2,65 metrar á breidd. Stígurinn er unninn í samstarfi Sveitarfélagsins Voga og Vegagerðarinnar sem greiðir næstum 70% kostnaðar við framkvæmdina en sveitarfélagið sótti styrk í sjóð Vegagerðarinnar sem styrkir lagningu stíga sem þessa og hafa það hlutverk að bæta umferðaröryggi. Stígurinn er lagður eftir stöðlum Vegagerðarinnar og þarf að vera að lágmarki 2,5 metra breiður. Stígurinn í Sveitarfélaginu Vogum uppfyllir þær kröfur Vegagerðarinnar og rúmlega það. Aðalverktaki við stíginn var GÓ-verk sem lagði stíginn fyrir tæp 63% af kostnaðaráætlun.
Gestir við athöfnina komu margir gangandi eða hjólandi á staðinn.
Kostnaður við þessa 2,6 kílómetra er ríflega 50 milljónir króna en stígurinn er fyrsti áfangi þess að tengja göngu- og hjólastíg frá Vogum við stígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Það gekk þó ekki þrautalaust að fá að leggja stíginn í fyrstu en samningar við landeigendur gengur misjafnlega. Við vígsluna á stígnum kom fram að einnig standi til að leggja stíg yfir Vogastapa og tengjast stígum í Reykjanesbæ. Verið er að ræða við landeigendur um stígalögnina en hugmyndin er að leggja stíginn í gamla þjóðveginn yfir Stapann. Þaðan er einnig stutt inn á göngu- og hjólastíg sem liggur með Grindavíkurveginum að Grindavík og Bláa lóninu.
Nýi göngu- og hjólastígurinn er 2,6 kílómetra langur og lagður malbiki sem er 2,65 metrar á breidd.
VF-myndir: Hilmar Bragi